Ungmenni köstuðu flugeldi inn í hús

Lögregla bendir á að öll meðferð flugelda er óheimil nema …
Lögregla bendir á að öll meðferð flugelda er óheimil nema á tímabilinu 28. desember til 6. janúar að báðum dögum meðtöldum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Flugeldi var kastað inn um opinn glugga íbúðarhúsnæðis á Suðurnesjum um helgina þar sem hann sprakk. Minni háttar skemmdir urðu af þessu athæfi. Lögreglan á Suðurnesjum hafði upp á þeim sem þarna voru að verki og reyndust það vera nokkur ungmenni.

Þá var tilkynnt um skothvelli við Garðskagavita. Í því tilviki reyndist vera um flugeldaskot að ræða.

Lögregla bendir á að öll meðferð flugelda er óheimil nema á tímabilinu 28. desember til 6. janúar að báðum dögum meðtöldum. Er þeim tilmælum beint til fólks að virða þær reglur, segir í tilkynningu frá embættinu.

Stal 19 pakkningum af kjúklingabringum

Þjófnaður úr verslun í Reykjanesbæ hefur verið kærður til lögreglunnar á Suðurnesjum. Eftirlitsmyndavélar í versluninni sýna hvar karlmaður kom inn með innkaupakerru, fyllti hana af varningi, gekk að sjálfsafgreiðslukassa, tók þar burðarpoka sem hann lagði ofan á vörurnar í kerrunni og gekk svo út með hana án þess að borga. Meðal þess hann tók voru 19 pakkar af kjúklingabringum, kassi af Pepsi Max svo og mikið magn af matvælum og hreinlætisvörum.

Maðurinn sem grunaður er hefur komið við sögu á höfuðborgarsvæðinu vegna þjófnaðarmála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert