Flæmdu ferðamenn af Sólheimasandi

Mikill vindur og öldugangur var í Reynisfjöru er fréttaritara mbl.is …
Mikill vindur og öldugangur var í Reynisfjöru er fréttaritara mbl.is bar að garði í hádeginu. mbl.is/Jónas Erlendsson

Lögreglan í Vík óskaði í hádeginu eftir aðstoð björgunarsveitarinnar Víkverja til að aðstoða við að fá fólk af Sólheimasandi vegna slæms veðurs. Að sögn Sigurðar Gýmis Bjartmarssonar björgunarsveitarmanns var um fyrirbyggjandi vinnu að ræða. „Það var enginn í hættu enn, en það var búið að spá skítaveðri.“

Minnst átta pörum eða ferðahópum, sem höfðu gert sig líklega til að halda út á Sólheimasand, var snúið við og segir Sigurður að allir hafi tekið vel í tilmælin.

Mjög hvasst er á Suður- og Suðausturlandi einkum undir Eyjafjöllum og í Öræfum. Að sögn Daníels Þorlákssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands hefur vindhraði náð 28 metrum á sekúndu, en vindur í hviðum náð 45 metrum á sekúndu undir Eyjafjöllum.

Gul viðvörun er í gildi á Suðurlandi, en Daníel segir að viðvörunarstig sé ekki hærra vegna þess hversu afmarkaðs svæðis viðvörunin nær til. „Þetta er í raun samgönguviðvörun,“ segir hann. Útlit er fyrir að dragi úr vindi á næstu klukkutímum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert