Djúp lægð nálgast sunnan úr hafi

Á morgun nálgast kröpp og dýpkandi lægð sunnan úr hafi …
Á morgun nálgast kröpp og dýpkandi lægð sunnan úr hafi og hvessir þá hressilega að austan og síðan norðaustan og fer að snjóa sunnan- og austanlands. mbl.is/Golli

Norðankaldi og dálítil él verða fram eftir degi, en snýst síðan í sunnanátt með slyddu eða snjókomu öðru hvoru sunnan- og vestanlands, en léttir jafnframt til fyrir norðan og austan, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Á morgun nálgast kröpp og dýpkandi lægð sunnan úr hafi og hvessir þá hressilega að austan og síðan norðaustan og fer að snjóa sunnan- og austanlands. Skyggni og færð versna mjög ört í hríðarbyl á þeim slóðum og eru því gular viðvaranir í gildi. 

Fer þó smám saman hlýnandi og rignir við ströndina um kvöldið. Áfram stíf norðan- og norðaustanátt á fimmtudag með éljum víða á landinu, en bjartviðri syðra og kólnar heldur.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:
Vaxandi austan- og síðar norðaustanátt, 15-25 m/s eftir hádegi, hvassast við fjöll SA til. Víða snjókoma eða slydda, einkum á A-verðu landinu, en rigning við ströndina um kvöldið. Hlýnar í veðri og hiti 0 til 5 stig með kvöldinu.

Á fimmtudag:
Norðaustan 15-23 m/s norðvestanlands, en annars hægari. Snjókoma á norðanverðu landinu, en él syðra. Hiti kringum frostmark.

Á föstudag:
Stíf austlæg átt með snjókomu eða éljagangi. Vægt frost víða hvar.

Á laugardag:
Snýst í norðaustanátt með snjókomu víða um land, en léttir til SV-lands og kólnar í veðri.

Á sunnudag:
Líklega hæg vestlæg átt með éljum, einkum V-lands og frosti 1 til 6 stig.

Á mánudag:
Útlit fyrir stífa suðvestanátt með éljum, en bjartviðri N- og A-lands og köldu veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert