Ók á hóp fólks

mbl.is/Eggert

Ökumaður missti stjórn á bifreið sinni við Stórholt í gærkvöldi með þeim afleiðingum að hann ók utan í aðra bifreið og síðan á hóp gangandi fólks. Kona í hópnum slasaðist á hendi og mjöðm. Var skoðuð af sjúkraflutningamönnum á vettvangi og töldu þeir meiðsl hennar minni háttar. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er lítið tjón á báðum bifreiðum.

Tveir voru fluttir á bráðamóttökuna eftir bílveltu í hringtorgi við Vínlandsleið um klukkan 18 í gær. Þar missti ökumaður stjórn á bifreið sinni, ók á steinhleðslu og velti bifreiðinni. Ökumaður og farþegi voru báðir í öryggisbelti en aumir í baki, hálsi og víðar. Bifreiðin flutt af vettvangi með Króki.  

Í gærkvöldi varð árekstur á Sæbraut (í hverfi 104) og urðu engin meiðsl á fólki. Annar ökumaðurinn reyndist vera án ökuréttinda, þ.e. hafði ekki gild ökuréttindi og hefur lögreglan haft ítrekuð afskipti af honum í umferðinni.

Í nótt missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Vesturlandsvegi og ók á vegrið. Engin meiðsl á fólki skráð í dagbók lögreglunnar en bifreiðin mikið skemmd. Bifreiðin var flutt af vettvangi með Króki. 

Lögreglan stöðvaði för ökumanns á Reykjanesbraut á níunda tímanum í gærkvöldi og er ökumaðurinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum. Hann var jafnframt ekki í öryggisbelti við aksturinn.

Um átta í gærkvöldi var síðan ölvaður ökumaður stöðvaður í Austurbænum (hverfi 108) og annar í Breiðholtinu (hverfi 109) upp úr miðnætti. Sá var ekki bara undir áhrifum áfengis heldur einnig fíkniefna. Hann hefur ítrekað verið stöðvaður fyrir akstur sviptur ökuréttindum. Jafnframt var hann með fíkniefni á sér.

Um eitt í nótt var síðan ökumaður sem var undir áhrifum fíkniefna stöðvaður í Austurbænum (hverfi 105). Hann er ekki með ökuréttindi en hefur ekki látið það stöðvað sig í umferðinni því lögreglan hefur ítrekað stöðvað hann í umferðinni. Á þriðja tímanum í nótt var síðan för ölvaðs ökumanns stöðvuð í hverfi 109.

Tilkynnt var um innbrot á tveimur stöðum á kvöld- og næturvakt lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Í fyrra skiptið var brotist inn í geymslur í fjölbýlishúsi í hverfi 109 og seinna um kvöldið var brotist inn í bifreið í Hafnarfirði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert