Nýsköpunarmiðstöð Íslands verður lögð niður

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadótti ráðherra nýsköpunarmála kynnti ríkisstjórninni þessi áform …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadótti ráðherra nýsköpunarmála kynnti ríkisstjórninni þessi áform í morgun. mbl.is/Eggert

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra nýsköpunarmála áformar að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands (NMÍ) um næstu áramót og finna þeim verkefnum sem þar eru unnin í dag og til stendur að halda áfram að vinna, nýjan farveg.

Þessi áform kynnti Þórdís Kolbrún á ríkisstjórnarfundi í morgun, en greint er frá þessum breytingum í tilkynningu á vef stjórnarráðsins. Þar kemur fram að Sigríður Ingvarsdóttir forstjóri NMÍ muni leiða vinnuna innan stofnunarinnar og njóta til þess stuðnings stýrihóps ráðuneytisins.

Búið er að upplýsa starfsfólk NMÍ um stöðu mála, en alls starfa 81 manns hjá NMÍ í 73 stöðugildum. Nýsköpunarmiðstöðin var sett á fót árið 2007 með sameiningu Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins.

Fjármagnið renni þangað sem þess sé þörf

Fram kemur á vef ráðuneytisins að með breytingunum vilji ráðherra „stuðla að öflugum opinberum stuðningi þar sem hans er þörf í núverandi umhverfi“ og haft er eftir Þórdísi Kolbrúnu að eitt leiðarljósa nýsköpunarstefnu fyrir Ísland sé að nýta eigi fjármagn til rannsókna og frumkvöðla umfram umsýslu og yfirbyggingu. 

Bein framlög ríkissjóðs til NMÍ nema 700 milljónum króna, fyrir utan kostnað við húsnæði stofnunarinnar í Keldnalandi, og í tilkynningu segir að áætlað sé að um 350 milljónum verði í framhaldinu veitt árlega til verkefna sem haldi áfram á öðrum stöðum. 

„Það er mikilvægt að endurskoða hlutverk opinberra stofnana reglulega svo stjórnvöld geti sem best þjónað hlutverki sínu um stuðning við nýsköpun í landinu,“ er sömuleiðis haft eftir ráðherra.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að niðurstaða mikillar greiningarvinnu sé sú að hluta verkefna NMÍ megi framkvæma undir öðru rekstrarformi. Hluti verkefnanna geti verið framkvæmd af aðilum á markaði og hluti þeirra séu ekki forgangsverkefni hins opinbera í nýsköpun vegna þroskaðra umhverfis nú. Þeim verði því hætt.

„Á þeim þrettán árum frá stofnun Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands hefur umhverfið tekið stakkaskiptum. NMÍ hefur unnið mikilvægt starf að uppbyggingu á stuðningsumhverfi nýsköpunar og tækniþróunar á Íslandi. Í ljósi þeirra jákvæðu breytinga sem hafa orðið á umhverfi nýsköpunar og frumkvöðla er eðlilegt að endurskoða aðkomu hins opinbera, sérstaklega þegar um ræðir jafn kvikt umhverfi og nýsköpun er. Í dag hafa fjölmargir aðilar bæst við flóru þeirra sem styðja við nýsköpun og frumkvöðla og taka þessi áform mið af því í samræmi við nýsköpunarstefnu,“ er haft eftir ráðherra á vef ráðuneytisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert