„Það má enginn reyna að skjóta sér undan“

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra og formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, segir að meðal næstu skrefa sem ríkisstjórnin horfir til þegar kemur að efnahagslegum aðgerðum vegna útbreiðslu kórónuveirunnar sé að meta hvernig hlutabótaleiðin hefur gagnast alls konar atvinnustarfsemi og möguleika á að yfirfæra hana á starfsemi sem hafi þurft að loka, meðal annars vegna samkomubanns. Sagði hann að ef þjóðin ætlaði að standa saman þyrfti líka að horfa til þessarar starfsemi.

Þetta kom fram í máli Bjarna á fjarfundi sem hann hélt á facebooksíðu Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í hádeginu.

„Með hinu auganu að horfa til framtíðar“

Bjarni sagði jafnframt að mikilvægt væri að frumkvöðlastarsemi myndi halda áfram á þessum sérstöku tímum. Sagðist hann jafnvel telja að slík starfsemi þyrfti að fá aukið vægi, en honum varð tíðrætt um að á sama tíma og bregðast þyrfti við aðsteðjandi efnahagslegum vanda þyrfti jafnframt að horfa til framtíðar.

Dusta þyrfti rykið af tillögum sem hefðu komið fram en ekki verið framkvæmdar um hvernig hægt væri að straumlínulaga ferla og samskipti við íbúa og fyrirtæki landsins og þannig draga úr tilkostnaði þeirra við að hrinda verkefnum í framkvæmd. „Að báknið verði ekki fyrirstaða,“ sagði hann.

Bjarni sagði að ekki færi mikið fyrir þessari umræðu núna en sýna þyrfti hæfileikann að takast á við vandann, „en með hinu auganu að horfa til framtíðar“.

Allir þurfi að vera með

Sagði Bjarni að allar grunnstoðir landsins væru ótrúlega öflugar. Skuldastaða ríkisins væri góð, Seðlabankinn ætti mikinn gjaldeyrisvaraforða og engin þörf væri á að leita til alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða sækja um neyðarlán líkt og gert var eftir hrun fjármálakerfisins. Sagði Bjarni að hér væru góðar aðstæður sem íbúar landsins hefðu sjálfir byggt upp og væru til þess að komast í gegnum þessa krísu, jafnvel þótt svartsýnasta spá myndi rætast.

Bjarni taldi mikilvægt að standa með skapandi greinum, fjárfesta í arðsömum verkefnum en á sama tíma passa upp á að skuldsetja sig ekki úr hófi fram með verkefnum sem myndu engu skila til lengri tíma. Ef það myndi ganga eftir „erum við í góðri stöðu“, sagði hann og bætti við að fólk ætti að nýta tímann núna til að undirbúa sig með þor og bjartsýni að leiðarljósi til að hrinda hugmyndum sínum af stað þegar birti til að nýju.

Tók hann sérstaklega fram að allir yrðu að taka þátt í að fara í gegnum þessa krísu á sem bestan hátt fyrir samfélagið. Það ætti til dæmis við um fjármálastofnanir, leigusala og kröfuhafa. „Það má enginn reyna að skjóta sér undan,“ ítrekaði Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert