Húrra Reykjavík sameinar verslanirnar

Ný sameinuð verslun Húrra Reykjavíkur verður í bakhúsi á Hverfisgötu …
Ný sameinuð verslun Húrra Reykjavíkur verður í bakhúsi á Hverfisgötu 18A á móti Þjóðleikhúsinu. Áður var þar húsgagnaverslunin NORR11, svo sem sést á mynd. Á myndinni hægra megin eru Sindri Snær Jensson og Jón Davíð Davíðsson kaupmenn. mbl.is/samsett

„Þetta er nýr hot spot, hvernig myndi maður segja það á íslensku?“ veltir Sindri Snær Jensson fyrir sér og fær um hæl svarið „heitur reitur“, sem er ekki verri þýðing en hver önnur. 

Hún er hér notuð yfir heitan reit í vinnslu beint á móti Þjóðleikhúsinu, þar sem Húrra Reykjavík er að opna nýja verslun í tvílyftu húsnæði og Dóri DNA er að opna vínbar á sama reit, eins og mbl.is hefur sagt frá. Vínbarinn verður á Hverfisgötu 18 og Húrra í bakhúsi á Hverfisgötu 18A.

Sindri er einn eigenda Húrra: „Þetta er draumur að verða veruleika hjá Húrra, að sameina loksins verslanirnar undir einu og sama þakinu. Við vildum vera áfram á Hverfisgötunni og höfum verið að leita að húsnæði lengi. Það er bara ekki nógu mikið af flottum og spennandi stærri rýmum í miðbænum. Nýju rýmin eru mörg hver hálfsteríl og leiðinleg en síðan kom þetta, gamalt verksmiðjuhúsnæði, ljósmyndagallerí og fleira, og þá töldum við þetta rétt skref.

Beint í næsta húsi opna Dóri DNA og Ben Boorman …
Beint í næsta húsi opna Dóri DNA og Ben Boorman vínbarinn Mikka ref og um leið flytur NORR11 inn í samliggjandi rými. Ljósmynd/Aðsend

Þetta verður þarna við eina flottustu húsgagnaverslunina og mjög spennandi kaffi- og vínbar. Við erum þarna ungt fólk í rekstri með ferska sýn og það verður til dæmis gaman að sameinast um að halda viðburði og tónleika og slíkt í portinu á bak við húsið,“ segir Sindri. Með húsgagnaverslun á hann við NORR11, sem hefur verið í bakhúsinu síðustu ár, og færir sig nú yfir á Hverfisgötu 18, á sama stað Mikki refur, vínbarinn hans Dóra DNA.

Húrra hefur rekið verslun fyrir karla frá 2014 á Hverfisgötu 50 og fyrir konur á Hverfisgötu 78 frá 2017. Þær verða báðar opnar fram í byrjun september, þegar nýja búðin verður opnuð á sex ára afmæli Húrra. Sindri segir að leiguhækkun hafi verið í þann mund að koma til í núverandi húsnæði, þannig að sameining og þar með hagræðing sé kjörið skref í átt frá því. Hann hefur ekki upplýsingar um hvað tekur við á Hverfisgötu 50 og 78 að þeim förnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert