Þurfa að aflýsa fjölda flugferða

mbl.is/Kristinn Magnússon

Aflýsa þarf fjölda áætlunarferða til Keflavíkurflugvallar næstu daga þar sem afkastageta í smitprófunum á komufarþegum er ekki nægjanlega mikil. Isavia segir það verkefni samræmingarstjóra á vegum Samgöngustofu að fækka flugferðunum. Samræmingarstjórinn sjálfur segir að það sé ekki hans að leggja línurnar. Þetta kemur fram á vef Túrista.

Frá því að smitprófanir á komufarþegum á Keflavíkurflugvelli hófust 15. júní hefur afkastagetan takmarkast við tvö þúsund sýni á dag. Hingað til hefur ekki reynt á þetta hámark en frá og með miðvikudeginum þarf að fella niður allt að sex áætlunarflug á dag til að halda fjölda komufarþega undir tveimur þúsundum.

Þannig herma heimildir Túrista að aflýsa þurfi allt að átján áætlunarferðum til Keflavíkurflugvallar dagana 15. til 21. júlí. Ekki liggur fyrir hvernig velja eigi hvaða flugfélög fá að koma og hver ekki. En Icelandair er með um helming af öllum flugferðum til og frá landinu þessa dagana.

Ef fella þarf niður öll þessi átján flug þá má gera ráð fyrir að það hafi áhrif á ferðir um tvö þúsund farþega í það minnsta. Hvort það eru flugfélög og ferðaskrifstofur sem eiga að endurgreiða farþegunum eða jafnvel íslensk stjórnvöld eru líka vafaatriði samkvæmt viðmælendum Túrista.

Samræmingarstjórinn fyrir íslenska flugvelli, Frank Holton, framkvæmdastjóri Airport Coordination, heldur meðal annars utan um úthlutun lendingarleyfa á Keflavíkurflugvelli og raðar því niður dagskrá flugvallarins.

„Ég sé að Isavia reiknar með að ég, sem samræmingarstjóri, taki að mér það verkefni að valda farþegum og flugfélögum vonbrigðum með því að svipta þau áður staðfestum lendingartímum. Það get ég gert en ákvörðun um slíkt verður að koma frá Samgöngustofu og þaðan þurfa að koma leiðbeiningar um hvernig velja eigi á milli flugferða við þessar sérstöku aðstæður,” segir Holton í samtali við Túrista nú í morgunsárið.

„Eins og staðan er í dag þá þyrfti að auka afkastagetuna í smitprófunum upp í þrjú þúsund sýni á dag, næstu tvær vikur, til að koma í veg fyrir niðurfellingu á flugferðum,” útskýrir Holton í samtali við Túrista. Hann bætir við að önnur lausn gæti verið að veita ákveðnum þjóðum undanþágu frá prófunum.

Hér er hægt að lesa frétt Túrista í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert