Ekki tilefni til að hækka viðbúnaðarstig

Landspítalinn.
Landspítalinn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þótt viðbragðsstjórn og farsóttanefnd Landspítalans séu uggandi yfir stöðunni sem upp er komin í kórónuveirufaraldrinum er ekki tilefni til að hækka viðbúnaðarstig spítalans, sem nú er á óvissustigi. Þetta segir í forstjórapistli Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítlans, sem birtur er í dag. Þessi bylgja faraldursins hafi ekki haft slík áhrif á starfsemi spítalans enn sem komið er.

Í pistlinum minnir Páll starfsmenn á að huga áfram að smitvörnum, bæði innan spítalans og utan. Bendir hann á að fjöldi ungs fólks sé meðal hinna smituðu og spítalinn sé einmitt svo lánsamur að stórir hópar ungs fólks stundi þar verknám.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í fyrstu bylgju faraldursins hér á landi hafði það áhrif á starfsemi spítalans hve margir starfsmenn urðu að fara í sóttkví. Frá því í sumar hefur hins vegar verið grímuskylda meðal starfsmanna spítalans og ítrekar Páll tilmæli til starfsmanna um að nota grímur þegar ekki er hægt að halda tilskildri fjarlægð.

„Reyndar er óhætt að segja að sennilega er óvíða jafnlítið um smit og einmitt á Landspítala,“ segir Páll, en í nýlegri rannsókn hjá klínísku starfsfólki reyndust aðeins 0,25% starfsmanna hafa myndað mótefni fyrir kórónuveirunni, og þar með fengið veiruna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert