Eigum ekki að þurfa að sitja undir svona vitleysu

Fréttablaðið.
Fréttablaðið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Þórisson, ritstjóri Fréttablaðsins, segir óskemmtilegt að þurfa að þola atvinnuróg eins og þann, sem fram kom í facebookfærslu bandaríska sendiráðsins á Íslandi í fyrrinótt. Þar var Fréttablaðið sagt falsfréttamiðill vegna fréttaflutnings um að starfsmaður í sendiráðinu hefði greinst með kórónuveiruna.

„Það setur auðvitað að manni ugg þegar sendimaður erlends ríkis sýnir tilburði til þess að hafa áhrif á fréttaflutning og umræðu í frjálsum fjölmiðlum á Íslandi. Nú veit maður auðvitað ekki hverju hann er vanur, en það er eitthvað sem við eigum ekki að venjast hér,“ segir Jón í samtali við mbl.is.

„Það er erfitt að sitja undir slíku, ekki síst þar sem hann staðfestir nær allt það, sem fram kemur í fréttinni,“ en hann, eins og fleiri, telur að Jeffrey Ross Gunter sendiherra hafi sjálfur ritað færsluna.

Jón segir ekki útilokað að Fréttablaðið leggi fram kvörtun vegna málsins til utanríkisráðuneytisins eða að það sendi mögulega fyrirspurn til bandaríska utanríkisráðuneytisins. „En við erum ekkert komin svo langt. Manni sýnist á umræðunni að ummælin dæmi sig alveg sjálf, en það er samt þannig að það er erfitt að sitja undir svona löguðu.“ Þar segist Jón ekki aðeins tala fyrir sjálfan sig og Fréttablaðið.

„Þetta varðar ekki aðeins okkur, heldur frjálsa fjölmiðlun í landinu. Allir blaðamenn og allir fjölmiðlar eiga mikið undir því að þurfa ekki að sitja undir svona vitleysu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert