Rannsóknarnefnd bendir á þrjár orsakir banaslyss

Á þjóðveginum. Mynd úr safni.
Á þjóðveginum. Mynd úr safni. mbl.is/RAX

Rannsóknarnefnd samgönguslysa bendir á þrjár orsakir þess að banaslys varð þegar ökumaður Toyota Hilux-bifreiðar keyrði á 83 ára karlmann á hringveginum við bæinn Viðborðssel á Suðausturlandi 21. nóvember á síðasta ári.

Þetta kemur fram í skýrslu nefndarinnar sem samþykkt var í gær.

Í atvikalýsingu þar segir að síðdegis þennan dag hafi dökkklæddur maður gengið í austur á hægri akrein Suðurlandsvegar við bæinn Viðborðssel.

„Hann gekk með bakið í akstursstefnu, með vasaljós en fatnaður hans var án endurskinsmerkja. Stuttu áður sáu vitni manninn ganga vinstra megin austur eftir veginum. Myrkur var og rigning.“

Á sama tíma hafi ökumaður pallbifreiðar ekið austur Suðurlandsveg með einn farþega í framsæti.

„Rétt áður en slysið varð, var bifreið ekið úr gagnstæðri átt framhjá manninum. Að sögn ökumanns og farþega í þeirri bifreið gekk maðurinn eftir miðri hægri akrein vegarins þegar bifreið þeirra ók framhjá honum.“

Nokkrum sekúndum seinna mættust bifreiðarnar tvær.

Lést á vettvangi

„Ökumaður pallbifreiðarinnar sá ekki manninn á veginum fyrir slysið. Hægra framhorn bifreiðarinnar rakst á manninn sem kastaðist í götuna. Fann ökumaðurinn högg koma á pallbifreiðina. Farþegi í bifreiðinni sá að ekið hafði verið á mann,“ segir í atvikalýsingunni.

Fram kemur að maðurinn hafi við áreksturinn fengið banvæna fjöláverka, bæði á höfði og bol, og látist á vettvangi. Ökumaður og farþegi í pallbifreiðinni hafi ekki hlotið áverka í slysinu.

Frá slysstaðnum og að þeim stað þar sem bifreiðin var stöðvuð voru um 124 metrar. Lesið var úr aksturstölvu bifreiðarinnar og var hraði bifreiðarinnar samkvæmt tölvunni um 89 km/klst þegar slysið varð. Engin hemlun var skráð í aksturstölvu bifreiðarinnar fyrir áreksturinn.

Niðurstaða áfengis- og lyfjarannsókna á ökumanni og hinum látna voru neikvæðar.

Teikning/RNSA

Of hratt ekið

Greindar eru þrjár orsakir slyssins eins og áður sagði, og eru þær listaðar á eftirfarandi hátt:

  • Ökumaður sá ekki gangandi vegfaranda.
  • Vegfarandi gætti ekki að sér er hann gekk dökkklæddur eftir akrein þjóðvegar í rigningu og myrkri í akstursstefnu bifreiða.
  • Ökumaður ók of hratt miðað við aðstæður.

Nefndin bendir á að endurskinsmerki og sýnileikafatnaður séu lykilatriði þegar dimmt er og lítið skyggni.

„Á þeim stað er slysið varð er vegurinn óupplýstur þjóðvegur í dreifbýli og gekk maðurinn sem lést í slysinu dökklæddur á veginum með bakið í aksturstefnu akreinarinnar og án endurskinsmerkja.“

Í umferðarlögum komi fram að ef ekki sé fyrir hendi sérstakur gangstígur eða vegöxl megi ganga eftir akbraut en að jafnaði skuli gengið við vinstri vegbrún miðað við gönguátt. Með því að ganga á móti umferðinni í vegkanti eigi gangandi vegfarandi auðveldara með að greina aðkomandi farartæki og þá lýsa á móti til að vekja á sér athygli.

Um 1-3 sekúndur að hefja hemlun

Þá bendir hún einnig á að ökumaður á þjóðvegahraða ferðist um 25 metra á hverri sekúndu, eða 90 kílómetra á klukkustund.

„Líklegt er að ökumaður sé um 1-3 sekúndur að hefja hemlun eftir að óvænt hætta skapast og fer ökutækið því um 25-75 metra eftir að hættu verður vart þar til hemlun hefst.“

Nefndin minnir á að gangandi vegfarendur eigi ávallt að bera skýr endurskinsmerki við göngu í myrkri, en þau auki sýnileika fyrir ökumönnum um marga tugi metra og gefi þeim því meiri möguleika á því að bregðast við tímanlega.

„Ljósgeisli aðalljósa bifreiða og bifhjóla lýsir niður á veginn. Því er ráðlegt að vera einnig með endurskin við öklahæð eða neðst á kálfa því sú staðsetning kemur fyrr inn í ljósgeisla aðalljósa bifreiða en endurskin á efri hluta líkamans.“

Nauðsynlegt að draga úr hraða í litlu skyggni

Nauðsynlegt sé þá að allir vegfarendur geri sér grein fyrir áhrifum myrkurs og bleytu á sýn ökumanna.

„Rigning og myrkur skerða útsýn ökumanna. Bleyta á rúðum takmarkar útsýn, regndropar dreifa og endurkasta ljósi. Blautur vegur endurkastar minna ljósi en þurr vegur og verður dekkri í myrkri, endurskin frá vegmerkingum minnkar í bleytu, sérstaklega ef þær eru undir yfirborði vatns.

Í vatnsaustri setjist einnig óhreinindi á ljós bifreiða og draga úr birtu frá þeim.

Loks er bent á að viðmiðunar stöðvunarvegalengd við veghönnun skv. veghönnunarreglum Vegagerðarinnar sé u.þ.b. 150 m fyrir 90 km/klst hraða.

„Þegar lág ljós eru notuð í myrkri og rigningu ná þau ekki að lýsa upp nauðsynlega stöðvunarvegalengd fyrir 90 km/klst. Við sambærilegar aðstæður og voru í þessu slysi er nauðsynlegt fyrir ökumenn að draga úr aksturshraða, jafnvel þó hái geislinn sé notaður. 

Brýnir nefndin fyrir ökumönnum að nauðsynlegt sé að draga úr aksturshraða í dimmu veðri og enn frekar þegar vegur er einnig blautur, til þess að tryggja nægilega sjónvegalengd þannig að ökumaður hafi möguleika á að bregðast við og stöðva ökutæki ef hætta skapast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert