Fundu fíkniefni við húsleit

Lögreglan á stöð 4 sem sér um löggæslu í Grafarvogi, Mosfellsbæ og Árbæ sinnti ýmsum málum frá því klukkan 17 í gær þangað til 5 í morgun. Lögregla aðstoðaði sjúkralið vegna slysa, fór í húsleit þar sem lögregla fann fíkniefni ásamt því að lögregla sinnti umferðarmálum á svæðinu samkvæmt dagbók lögreglunnar. 

Fjórir ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna í umdæmi lögreglunnar á Seltjarnarnesi, Vesturbæ, miðborg og Austurbæ (Stöð 1). Þeir voru látnir lausir að sýnatöku lokinni nema einn sem var vistaður í þágu rannsóknar sakamáls. Hann er einnig grunaður um að hafa stungið af frá vettvangi umferðaróhapps.

Þó nokkrir ökumenn voru stöðvaðir fyrir minni háttar umferðarlagabrot sem öll voru leyst með vettvangsskýrslu. Lögregla á stöð 1 aðstoðaði við ýmis mál, slys, grunsamlegar mannaferðir og hávaðakvartanir.

Í Hafnarfirði og Garðabæ sinnti lögregla ýmsum málum, meðal annars afstungumálum, bifreiðastöðumálum ásamt því að einn ökumaður var stöðvaður á bifreið á röngum skráningarnúmerum. Þar var einnig ökumaður stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Hann var einnig með fíkniefni meðferðis.

Lögregla sem sinnir Breiðholti og Kópavogi var kölluð til vegna manneskju í annarlegu ástandi. Ekki reyndist þörf á frekari aðstoð lögreglu þar sem hún var farin þegar lögreglu bar að garði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert