„Léttari titill en að vera riddari“

Ólöf Nordal myndlistakona.
Ólöf Nordal myndlistakona. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta kom mér alveg í opna skjöldu en ég fékk reyndar að vita af þessu nokkrum dögum áður. Engu að síður var ég alveg orðlaus,“ segir myndlistarkonan Ólöf Nordal í samtali við mbl.is.

Líkt og greint var frá í dag er Ólöf Nordal borgarlistamaður Reykjavíkur 2021. Dagur B Eggertsson borgarstjóri og Hjálmar Sveinsson, formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs, veittu Ólöfu viðurkenninguna við hátíðlega athöfn í Höfða.

Ekki er um að ræða fyrstu viðurkenninguna sem Ólöf hlýtur fyrir störf sín, en hún var sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á nýársdag 2018. „Ég var nú reyndar meira hissa á því,“ segir Ólöf. Aðspurð hvort það sé mikill munur á þessum viðurkenningum segir Ólöf á léttu nótunum: „Þetta er nú svona léttari titill en að vera riddari.“

Ólöf eftir verðlaunaafhendinguna í dag.
Ólöf eftir verðlaunaafhendinguna í dag. mbl.is/Jón Helgi

Varðandi viðurkenningar fyrir vel unnin störf segir Ólöf: „Það er rosalega gaman að fá svona viðurkenningu og maður finnur að fólk kann að meta það sem maður er að gera. En svo heldur maður bara áfram að vinna á sínu plani.“

Fullt af verkefnum í vinnslu

Ýmislegt er á döfinni hjá Ólöfu, hún stefnir á að setja upp sýningu á Siglufirði nú í sumar. Einnig er hún að vinna í útilistaverkum sem verða sett upp á Selfossi. Auk þess er hún nýbúin að klára verk fyrir Menntaskólann við Hamrahlíð. Kannski ekki við öðru að búast en að borgarlistamaður Reykjavíkur 2021 hafi í nógu að snúast.

Ólöf segist ætla að fagna þjóðhátíðardeginum með því að fá sér pínulítið kampavín og rölta svo um bæinn og njóta þess sem Reykjavíkurborg býður upp á í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert