Reykjavíkurmaraþoni frestað

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka hefur verið frestað vegna óvissu af völdum Covid-19.
Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka hefur verið frestað vegna óvissu af völdum Covid-19. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka og ÍBR hefur verið frestað og mun það fara fram 18. september næstkomandi í stað 21. ágúst eins og stóð til upphaflega.

Á menningarnótt hefur farið fram Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka og Íþróttabandalags Reykjavíkur, ÍBR. Í fyrra var maraþoninu aflýst en nú hefur verið tekin ákvörðun um að fresta því til 18. september.

„Við vonum að þá verði ástandið orðið betra,“ segir Frímann Ari Ferdinandsson í samtali við mbl.is.

Ræst verður í 500 manna hollum og á öðrum stað en fólk kemur í mark. 

Þungt högg ef viðburðinum yrði aflýst

Í tilkynningu frá ÍBR kemur segir að mikilvægur þáttur Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka sé Hlaupastyrkur, þar sem þátttakendur safna fyrir góðgerðarfélög á Íslandi.

„Árið 2019 var sett áheitamet þar sem hlauparar söfnuðu 167.483.404 krónum til 181 góðgerðarfélags. Í fyrra þegar hlaupinu var aflýst söfnuðust 72.658.607 krónur til 159 góðgerðarfélaga. Mörg góðgerðarfélög stóla á hlaupastyrk og því viljum við hvetja sem flesta til að hlaupa og safna, eða styrkja aðra hlaupara. Það myndi verða þungt högg fyrir safnanir félaganna ef viðburðinum yrði aflýst annað árið í röð og af þeim sökum verður honum frestað í þeirri von að ástandið batni.“

Frímann segir ómögulegt að segja til um hvort skráningar haldi þótt hlaupinu sé seinkað. „Við þurfum að sjá hvort það sé stemning fyrir fjöldahlaupi á þessum tíma.“

Þeir einstaklingar sem eru skráðir 21. ágúst en sjá sér ekki fært að vera með 18. september geta sent tölvupóst á netfangið skraning@marathon.is til að færa skráninguna fram á næsta ár.

Tæplega 2.000 útlendingar eru skráðir í hlaupið og Frímann segir mikilvægt að þessir einstaklingar geti gert ráðstafanir enda séu flestir búnir að gera skuldbindingar gagnvart hótelum og með því að kaupa sér flugmiða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert