Sakfelldur fyrir 13 ára gamalt kynferðisbrot

Ljósmynd/Colourbox

Landsréttur hefur dæmt karlmann í þriggja ára skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa nauðgað konu á hótelherbergi erlendis fyrir 13 árum. Þá var maðurinn dæmdur til að greiða konunni tvær milljónir kr. í miskabætur. Konan hafði farið fram á sex milljónir kr.

Maðurinn var í Héraðsdómi Reykjavíkur í nóvember í fyrra dæmdur í tveggja og hálfs árs skilorðsbundið fangelsi og gert að greiða 2,5 milljónir kr. í miskabætur. Landsréttur þyngdi því dóminn um hálft ár en lækkaði bæturnar um hálfa milljón.

Fram kemur í dómi Landsréttar að maðurinn hafi verið sakfelldur fyrir að hafa haft samræði við konuna án hennar samþykkis og fyrir að hafa beitt hana ofbeldi og ólögmætri nauðung svo hún hlaut áverka af.

Í dómi Landsréttar kom einnig fram að konan hefði farið á neyðarmóttöku daginn eftir umrætt atvik þar sem teknar voru myndir af áverkum sem hún hafði. Þá lægju fyrir í gögnum málsins samskipti milli hennar og mannsins þar sem maðurinn hefði gengist við því að hafa beitt hana ofbeldi.

Framburður konunnar metinn trúverðugur

Tekið er fram að Þótt maðurinn hefði staðfastlega neitað því að hafa beitt konuna ofbeldi og ólögmætri nauðung í umrætt sinn yrði ekki horft fram hjá áðurnefndum samskiptum við mat á trúverðugleika framburðar hans. Voru gögnin talin veita framburði konunnar aukið vægi. Þá voru framburðir nánar tilgreindra vitna fyrir dómi taldir auka trúverðugleika framburðar konunnar en draga um leið úr trúverðugleika framburðar mannsins. Konan hefði frá upphafi verið samkvæm sjálfri sér um meginatriði málsins og var framburður hennar fyrir dómi, sem fengið hefði stoð í nánar tilgreindum gögnum málsins, metinn trúverðugur um þá háttsemi sem manninum var gefin að sök. Bæri því að leggja frásögn konunar um atvik í umrætt sinn til grundvallar í málinu.

Landsréttur þótti refsing vera hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár. Með vísan til þess að manninum yrði ekki kennt um að ríflega 13 ár væru liðin síðan brot hans átti sér stað og að hann hefði ekki áður gerst sekur um refsi verða háttsemi þótti rétt að fresta fullnustu refsingarinnar að öllu leyti skilorðsbundið í þrjú ár.

Þá var hann dæmdur til að greiða konunni 2.000.000 króna í miskabætur, sem fyrr segir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert