Sprenging í pílukasti

Jesper Sand Poulsen er nýr landsliðsþjálfari karla og kvenna.
Jesper Sand Poulsen er nýr landsliðsþjálfari karla og kvenna. Ljósmynd/María Hjálmarsdóttir

Daninn Jesper Sand Poulsen flutti til Eskifjarðar 2013, byrjaði að æfa pílukast þegar kórónuveirufaraldurinn skall á, var einn af stofnendum Píluklúbbs Austurlands í febrúar á nýliðnu ári, hefur verið formaður hans frá byrjun og er nýráðinn landsliðsþjálfari karla og kvenna í pílukasti til tveggja ára, tók formlega við um áramótin.

Áhugi á pílukasti hérlendis hefur aukist mikið á undanförnum árum og Jesper segir að þátttakendum hafi fjölgað til muna í heimsfaraldrinum undanfarin tvö ár. „Fólk þurfti að finna sér eitthvað til dundurs innilokað heima hjá sér og margir góðir pílukastarar hafa bæst í hópinn.“ Hann hafi verið aðgerðalaus heima og nokkrir félagar á Eskifirði hafi byrjað að kasta pílu saman.

„Við æfðum í tvo til þrjá klukkutíma á dag í um níu mánuði, fylgdum fyrirmælum Þórólfs og tókum þátt í innanlandsmótum. Fyrir tæpu ári ákváðum við að stofna píluklúbb og um miðjan febrúar var ég búinn að tryggja nægt fjármagn hjá fyrirtækjum á svæðinu til að opna æfingaaðstöðu. Þá stofnuðum við klúbbinn.“

Alþjóðlegum mótum í pílukasti hefur verið aflýst vegna heimsfaraldursins undanfarin tvö ár en stefnt er að Norðurlandamóti í Malmö í Svíþjóð í lok maí og er Jesper byrjaður að undirbúa þátttöku tveggja fjögurra manna karlaliða og eins fjögurra manna kvennaliðs Íslands. Keppt verður í liðakeppni, tvímenningi og einmenningi. „Ísland hefur einu sinni átt sigurvegara í keppninni, Guðjón Hauksson og Friðrik Jakobsson urðu Norðurlandameistarar í tvímenningi í Finnlandi 1993, og vonandi getum við endurtekið leikinn,“ segir Jesper.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert