Stórfyrirtæki fái ekki viðkvæmar upplýsingar

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á ekki að nota Facebook sem samskiptavefgátt fyrir viðkvæmar upplýsingar. Ef samfélagsmiðillinn er aftur á móti notaður af lögreglunni fyrir aðvaranir og til að hvetja fólk til að huga að hinu og þessu þá hefur Persónuvernd ekki gert athugasemd við það.

Þetta segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. Lögreglan á Suðurnesjum er hætt að nota Facebook eftir athugasemd stofnunarinnar varðandi móttöku upplýsinga í gegnum miðilinn.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ætlar ekki að fylgja dæmi samstarfsfólks síns á Suðurnesjum.

Spurð hvort ákvörðun lögreglunnar á Suðurnesjum hafi  komið henni á óvart segir Helga að Persónuvernd hafi tekið þá ákvörðun í mars í fyrra að gera athugasemdir við notkun lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á Facebook. Farið var yfir fjögur tilvik þar sem lögreglan óskaði eftir ábendingum í gegnum einkaskilaboð á Facebook.

Helga bendir á að ef slíkum upplýsingum sé miðlað á Facebook sé þeim um leið deilt til stórfyrirtækis í Bandaríkjunum. Þar að auki sé Facebook með samstarfsaðila, svokallaða þriðja aðila, sem fái líka þessar upplýsingar. Það gangi ekki að upplýsingum um einstakling með tengsl við afbrot á Íslandi sé deilt á slíkan hátt.

AFP

„Ef fólk telur sig geta stjórnað þessu eins og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segist gera er það þeirra mat og ákvörðun. Það er ekki okkar að segja af eða á um það á þessu stigi,“ segir Helga. Samt sem áður sé það skylda Persónuverndar að benda á þegar hætta getur verið á ferð.

Spurð segir hún ekkert lögregluembætti hafa haft samband við stofnunina eftir að athugasemdin hennar birtist. Vegna anna hafi hún heldur ekki ekki náð að fylgja málinu eftir og fara í samtal við lögregluumdæmin.

Aukin andstaða í Evrópu

Helga segir heilmikla umræðu hafa verið uppi í Evrópu um hvort stofnanir eigi yfirhöfuð að nota samfélagsmiðla sökum persónuverndarsjónarmiða. „Sumar þjóðir gera það en það má finna stíganda í andstöðu við það,“ greinir hún frá og segir Þjóðverja til að mynda hafa gert alvarlegar athugasemdir við að opinberar stofnanir noti samfélagsmiðla á borð við Facebook.

Hún nefnir sem dæmi að þau lögregluembætti erlendis sem noti Facebook séu búin að loka fyrir möguleikann á spjalli við þegnana á Messenger. Persónuvernd hafi því ekki verið að finna upp hjólið með athugasemdum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert