Sakfelldur fyrir að hóta vitni í sakamáli

Héraðsdómur Norðurlands eystra.
Héraðsdómur Norðurlands eystra. mbl.is/Jón Pétur

Héraðsdómur Norðurlands sakfelldi fyrir helgi karlmann fyrir brot gegn valdstjórninni en maðurinn hafði hótað vitni í sakamáli. Var maðurinn dæmdur í 60 daga óskilorðsbundið fangelsi.

Hótanirnar viðhafði ákærði vegna kæru vitnisins á hendur vini ákærða sem leiddi til þess að sakamál var höfðað á hendur vininum. 

Ákærði hótaði vitninu ofbeldi á samskiptaforritinu Messenger með orðunum: „eitt skal ég segja þér og það er að ég og mínir félagar sem eru nú flestir búnir að sitja í fangelsi fyrir morð og ýmislegt ljótt við vitum hver þú ert og við vitum líka um hestana þína svo þú ættir að hugsa þig aðeins um hvað þú ert að gera gömlum manni.“

Ákærði var árið 2017 dæmdur fyrir líkamsárás í Héraðsdómi Norðurlands og var refsing ákveðin fangelsi í fjóra mánuði, skilorðsbundið í tvö ár. Litið var til þess við ákvörðun refsingarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert