„Eru ráðherrar stoltir á bekkjarmyndinni?“

„Hvaða einkunn ætli ríkisstjórnin gæfi sjálfri sér? Er hún ánægð …
„Hvaða einkunn ætli ríkisstjórnin gæfi sjálfri sér? Er hún ánægð með veturinn og verkin?, spurði Hanna Katrín.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, líkti verkefnum ríkisstjórnarinnar við próf í ræðu sinni á eldhúsdögum Alþingis og spurði hvaða einkunn væri á einkunnaspjaldinu, væri þingið að útskrifast úr skóla.

„Mér varð hugsað til þess í morgun þegar samfélagsmiðlarnir mínir fylltust af brosandi grunnskólabörnum sem stóðu stolt með útskriftarskírteinið sitt vitandi að næstu ævintýri eru handan við hornið.  

En hvernig lítur einkunnaspjald ríkisstjórnarinnar út eftir fyrsta ár endurnýjaðs samstarfs ? Myndi hún stilla sér stolt upp með einkunnaspjaldið sitt fyrir myndatöku?,“ spurði Hanna Katrín í upphafi ræðu sinnar.

Verðbólgan „forn fjandi“

Hún sagði áskoranir, eða „próf“ ríkisstjórnarinnar hafi verið margskonar. Fyrsta prófið hafi verið að snúa við hallarekstri ríkissjóðs. Þar sé þörf á aðhaldi sem engin merki sjáist um.

„Þvert á móti er gert ráð fyrir að nafnvirði heildarútgjalda ríkissjóðs hækki um 200 milljarða á næstu 5 árum,“ sagði hún og gagnrýndi þensluhvetjandi fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar.

„Hún neyðir Seðlabankann til að hækka stýrivexti meira en ella til að ná tökum á okkar forna fjanda: verðbólgunni.“

„Slétt sama um sátt?“

Hanna Katrín nefndi því næst söluna á hlut ríkissins í Íslandsbanka.

„Ef það er eitthvað sem situr óuppgert í íslenskri þjóðarsál þá er það sala bankanna á árunum fyrir hrun.

Það var því öllum ljóst að aðferðafræðin við bankasöluna núna yrði að vera hafin yfir allan vafa ef sátt ætti að nást um málið.

Í ljósi þess hvernig til tókst er eðlilegt að spyrja hvort ríkisstjórninni hafi einfaldlega verið slétt sama um þá sátt?“

Ekki draugabani

Hanna Katrín sneri sér að heimsfaraldrinum og sagði hann hafa vakið upp gamla drauga heilbrigðiskerfisins.

„Draugar eins og örmögnun starfsfólks, þrautaganga sjúklinga og biðlistar sem lengjast með hverjum degi,“ sagði hún og að mikilvægt væri að baða draugana ljósi til að hrekja þá á brott.

„En því miður verður ríkisstjórnin seint kölluð draugabani, slíkt er úrræðaleysið.“

Eldhúsdagsumræður fóru fram á Alþingi í dag.
Eldhúsdagsumræður fóru fram á Alþingi í dag. Hákon Pálsson

Verbúðin Ísland

„Þetta var líka veturinn sem almenningur fékk áhuga á fiskveiðistjórnunarkerfinu og afleiðingum þess, jákvæðum jafnt sem neikvæðum. Þökk sé Verbúðinni,“ sagði Hanna Katrín.

Hún hélt áfram:

„Ég óttast að það sé fullreynt að mikilvægt auðlindaákvæði verði sett í stjórnarskrá sem staðfestir eignarhald þjóðarinnar með tímabindingu veiðiheimilda.“

„Hvaða einkunn?“

Í lokin taldi Hanna Katrín upp mál ríkisstjórnarinnar sem að hennar sögn næðu ekki inn í þingsal, heldur lítið lengra en á samfélagsmiðla ráðherranna.

„Pínulitla frelsismálið um sölu áfengis á framleiðslustað var til dæmis of stórt fyrir ríkisstjórnarflokkana. Og hvar er boðað frumvarp hæstvirts heilbrigðisráðherra um afglæpavæðingu neysluskammta?

Hvernig mun hæstvirtum innviðaráðherra ganga að koma leigubílafrumvarpi í gegn í sinni fjórðu tilraun?

Hér á við hið fornkveðna; betra er minna tal, minna Instagram, meiri aðgerðir,“ sagði hún og lauk ræðu sinni:

„Hvaða einkunn ætli ríkisstjórnin gæfi sjálfri sér? Er hún ánægð með veturinn og verkin? Eru allir ráðherrar stoltir á bekkjarmyndinni?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert