Embætti landlæknis stefnir Köru Connect

Embætti landlæknis telur að verulegir annmarkar hafi verið á úrskurðinum.
Embætti landlæknis telur að verulegir annmarkar hafi verið á úrskurðinum. Ljósmynd/Embætti landlæknis

Embætti landlæknis hefur stefnt Köru Connect ehf. og fleiri aðilum fyrir dóm vegna úrskurðar kærunefndar útboðsmála í máli fyrirtækisins gegn embættinu, heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Origo hf. og Sensa ehf. sem var birtur í febrúar síðastliðnum.

Í úrskurðinum var lögð 9 milljóna króna stjórnvaldssekt á embætti landlæknis. Fram kom að það hefði ekki farið að lögum um útboð við þróun á hugbúnaðarkerfunum Heilsuveru og Heklu, auk þróunar á fjarfundarbúnaði til notkunar á heilbrigðissviði. Þá þurfti embættið einnig að greiða tvær milljónir króna í málskostnað til Köru Connect, sem kærði kaup embættisins til kærunefndarinnar.

„Þó úrskurðurinn kæmi embættinu fyrir margra hluta sakir á óvart, varð hann embætti landlæknis tilefni til að fara yfir innkaup miðstöðvar rafrænna heilbrigðislausna með fulltingi sérfræðings á því sviði,“ segir í tilkynningu frá embætti landlæknis, þar sem fram kemur að á næstunni fari fram útboð á þeim hluta fjarfundarbúnaðar sem upprunalega kæran beindist að.

„Verulegir annmarkar“

„Embætti landlæknis og lögmenn þess telja hins vegar að á þessum úrskurði kærunefndar útboðsmála séu verulegir annmarkar og meiri en embættið geti unað. Það á við um bæði málsmeðferð kærunefndar sem og túlkun og beitingu laga um opinber innkaup“ í segir jafnframt í tilkynningunni.

Farið er fram á að mál kærunefndar útboðsmála verði endurupptekið og kröfum vísað frá eða hafnað.  

Í tilkynningunni segir einnig að ágreinings- og úrlausnarefnin sem fjallað er um í úrskurðinum séu afar flókin og telur embættið ógerlegt að útfæra úrskurðarorð kærunefndar. Auk þess kalli þau á kostnað sem gæti hlaupið á hundruðum milljóna króna.

„Embætti landlæknis finnst því mikilvægt að skorið verði úr um m.a. túlkun og beitingu laga um opinber innkaup varðandi samninga þá sem embættið, og heilbrigðisráðuneytið þar á undan, gerðu áður en þau lög tóku gildi. Embættinu er því nauðugur sá kostur að stefna Köru Connect ehf. og fleiri aðilum fyrir dóm og harmar að þess sé þörf.“

Engar athugasemdir við kæruna

Tekið er fram að ekki eru gerðar athugasemdir við kæru Köru Connect ehf. heldur úrskurð kærunefndar útboðsmála.

„Leikreglurnar eru því miður þannig að ekki er heimilt að stefna kærunefndinni. Stefna þarf kæranda og öllum aðilum máls til þess að fá breytingu eða ógildingu á úrskurði nefndarinnar fallist hún ekki á endurupptöku. Embættið myndi vilja sjá löggjafann breyta þeim reglum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert