Gamla starfið hennar Hörpu auglýst

Óskað er eftir leiðtoga í embætti safnstjóra Listasafns Íslands.
Óskað er eftir leiðtoga í embætti safnstjóra Listasafns Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Embætti safnstjóra Listasafns Íslands hefur nú verið auglýst undir yfirskriftinni „Leiðtogi óskast“, en áður gegndi Harpa Þórsdóttir starfinu. Hún var skipuð í embætti þjóðminjavarðar fyrr í þessum mánuði. Hefur sú skipun verið gagnrýnd mikið þar sem starfið var ekki auglýst heldur var Harpa færð til í starfi.

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, nýtti sér með því heimild til að færa starfsmenn hjá ríkinu til í starfi án þess að auglýsa viðkomandi stöðu lausa til umsóknar.

Stjórn Félags Fornleifafræðinga sendi frá sér yfirlýsingu þar sem lýst var yfir miklum vonbrigðum með það hvernig staðið var að skipun nýs þjóðminjavarðar. Tekið er fram að gagnrýnin snúi ekki að Hörpu, heldur skipunarferlinu.

Sigurjón  Baldur Hafsteinsson, prófessor í safnafræði við Háskóla Íslands, hefur einnig gagnrýnt skipunina ásamt fleirum.

Harpa Þórsdóttir ásamt Lilju Dögg Alfreðsdóttur.
Harpa Þórsdóttir ásamt Lilju Dögg Alfreðsdóttur. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Umsóknarfrestur til 12. september

Gamla starfið hennar Hörpu er hinsvegar auglýst laust til umsóknar í Morgunblaðinu í dag. Er gerð krafa um að umsækjendur hafi háskólamenntun sem nýtist í starfi og staðgóða þekkingu á starfssviði Listasafnsins. Framúrskarandi leiðtogahæfni, skipulagshæfni, frumkvæði og sjálfstæði.

Þá verða umsækjendur að hafa árangursríka reynslu af stjórnun og mótun liðsheildar og jafnframt árangursríka reynslu af mannauðsmálum, mannþekkingu og drifkraft. Sem og þekkingu á opinberri stjórnsýslu og lagaumhverfi opinberra stofnana.

Umsóknarfrestur er til og með 12. september og gert er ráð fyrir því að skipað verði í embættið 15. október. Skipað er í embættið til fimm ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert