Vegna mistaka tafðist að framlengja reglugerð

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur framlengt endurgreiðslureglugerðina.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur framlengt endurgreiðslureglugerðina. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Heilbrigðisráðherra hefur framlengt reglugerð um endurgreiðslu vegna þjónustu sérgreinalækna til 31. október samkvæmt tilkynningu frá Stjórnarráðinu. Kemur þar enn fremur fram að fyrir mistök hafi reglugerð um framlengdan gildistíma téðrar reglugerðar ekki verið send Stjórnartíðindum tímanlega fyrir birtingu í dag, 1. september.

Ragnar Freyr Ingvarsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur, ræddi við mbl.is í morgun og lét þar í ljós óánægju sína með að farist hefði fyrir að endurnýja reglugerðina.

Tekur Stjórnarráðið fram í tilkynningu sinni að réttur sjúklinga til endurgreiðslu sé tryggður frá og með deginum í dag þótt snurða hafi hlaupið á þráðinn við framlengingu reglugerðarinnar. Enn fremur kemur eftirfarandi fram:

„Réttur sjúklinga til endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sérgreinalækna helst því óbreyttur. Samningaviðræður milli Sjúkratrygginga Íslands og sérgreinalækna standa yfir. Heilbrigðisráðuneytið leggur áherslu á að staða sjúklinga gagnvart endurgreiðslu kostnaðar meðan samningar liggja ekki fyrir sé tryggð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert