Hæstiréttur tekur fyrir stóra Vatnsendamálið

Deilur um Vatnsendajörðina halda áfram.
Deilur um Vatnsendajörðina halda áfram. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Hæstiréttur mun taka fyrir mál nokkurra erfingja Sigurðar K. Hjaltested gegn Kópavogsbæ, sem varðar milljarðakröfur vegna eignarnáms bæjarins á Vatnsendajörðinni.

Hinn 25. apríl 2014 var Kópavogsbæ birt stefna af hálfu erfingja Sigurðar, fyrrum ábúanda á Vatnsenda, þar sem bærinn var krafinn um að greiða dánarbúi Sigurðar tæpa 75 milljarða króna vegna eignarnáms á landi Vatnsenda árin 1992, 1998, 2000 og 2007. 

Kópavogi gert að greiða dánarbúinu 989 milljónir 

Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 22. desember 2020 var Kópavogsbær sýknaður af öllum dómkröfum erfingjanna sem tóku til eignarnáms árin 1992, 1998 og 2000 en vegna eignarnáms Kópavogsbæjar 2007 var bærinn dæmdur til þess að greiða dánarbúi Sigurðar 968 milljónir króna. 

Landsréttur sneri við niðurstöðu héraðsdóms eftir að málinu var áfrýjað, að því er varðar eignarnám bæjarins árið 2007, en staðfesti niðurstöðu héraðsdóms að öðru leyti og sýknaði Kópavogsbæ þannig af öllum dómkröfum í málinu. 

Fjöl­marg­ir dóm­ar hafa gengið í mál­um sem tengj­ast eign­ar­haldi og umráðum yfir jörðinni. Upp­haf máls­ins teyg­ir sig til fjórða ára­tug­ar síðustu ald­ar, þegar Magnús Ein­ars­son Hjaltested, föður­bróðir Sig­urðar, arf­leiddi hann að jörðinni.

Tekjuöflunarvirði beina eignarréttarins ekkert

Taldi Landsréttur að ætla yrði að það hafi verið vilji Magnús­ar að bæt­ur vegna eignar­náms rynnu al­mennt til ábú­anda jarðar­inn­ar hverju sinni. Hefði Magnús því ráðstafað rík­um af­nota- og umráðarétti jarðar­inn­ar til framtíðar og þar með hefði rétt­ur­inn til að fram­selja eign­ina verið slit­inn frá hinum beina eign­ar­rétti og fylgdi ekki held­ur hinum óbeinu eign­ar­rétt­ind­um.

Lagði Lands­rétt­ur því til grund­vall­ar í mál­inu að eig­end­ur beina eign­ar­rétt­ar­ins, sem nú væri  dán­ar­bú Sig­urðar, gæti ekki vænst tekna af jörðinni til framtíðar og væri tekju­öfl­un­ar­virði beina eign­ar­rétt­ar­ins því ekk­ert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert