Sólveig svarar Höllu

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ömurlegt að fráfarandi framkvæmdastjóri ASÍ skuli ekki vera fær um annað en persónulegar atlögur að fólki, og geri enga tilraun til að færa í það minnsta einhverjar sönnur á mál sitt,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í færslu á Facebook um viðtal Höllu Gunnarsdóttur, fráfarandi framkvæmdastjóra ASÍ, í Dagmálum í dag.

Í framangreindu viðtali sagði Halla að átökin innan sambandsins snúist ekki um málefni heldur persónur og valdabaráttu. Í raun beri lítið á milli persóna og leikenda málefnalega séð.

Sólveig segir Höllu ekki benda á neitt máli sínu til stuðnings þegar hún segir að hún, Ragnar Þór og Vilhjálmur Birgisson séu „aðeins knúin áfram af lágkúrulegri valdasýki“.“

Stórundarlegt ef rétt er

„Halla segist ekki skilja umræðuna um endurvakningu Salek. Það er stórundarlegt ef rétt er. Halla ætti framar flestum að þekkja þá einbeittu vinnu sem að fór í gang hjá forsætisráðuneytinu með mikilli aðkomu ASÍ undir stjórn Drífu Snædal í því að útbúa svokallaða Grænbók um kjarasamninga og vinnumarkaðsmál (undirbúningsvinna við að innleiða Salek-kerfið, undir öðru nafni).

Halla var pólitískur ráðgjafi og nánasti samstarfsmaður forseta ASÍ. Hún útbjó t.d. með forsetanum gagna-pakka til að senda Grænbókar-nefndinni en sá pakki innihélt að mestu skjöl og gögn frá tíð Gylfa Arnbjörnssonar, algjörlega eins og þau komu af kúnni. Þótti Höllu þetta fullsæmandi pólitískt innlegg frá forystu ASÍ, og þetta hefði verið sent nema fyrir andstöðu mína og Ragnars Þórs, formanns VR (um þetta má lesa í grein minni Með Salek á sjálfstýringu: Kreppa íslensku verkalýðshreyfingarinnar II).“

Sólveig vildi ekki tjá sig frekar um málið við mbl.is er blaðamaður leitaði eftir því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert