Ákvörðun um starfslok ekki erfið

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, segist alltaf hafa vitað að hún myndi láta af embætti árið 2024. Hún segir ákvörðun um starfslok ekki hafa verið erfiða.

Agnes kynnti útgáfu á hirðisbréfi sínu í nýársprédikun sinni í Dómkirkjunni í morgun, en bréfið er upptaktur á starfslokum hennar sem verða eftir 18 mánuði.  

„Ég ákvað að tilkynna þetta núna með góðum fyrirvara þannig að fólk hefði tíma til þess að undirbúa næsta biskupskjör og vegna útgáfu hirðisbréfsins tengi ég þetta saman sem fyrsta skrefið að starfslokunum,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Agnes tók við embætti biskups árið 2012, fyrst kvenna til að gegna því.

Allt annað skipulag

Segir hún að miklar breytingar hafi orðið, frá því að hún hóf störf hjá kirkjunni.

„Það hafa orðið miklar breytingar í kirkjunni og allt annað skipulag heldur en var þegar ég byrjaði. Ný þjóðkirkjulög og ný skipan mála, þannig að það er mikil breyting frá því sem var.“

Aðspurð segir hún að breytingar hjá kirkjunni hafi ekki haft áhrif á ákvörðun hennar um starfslok.

Nýja árið leggst vel í Agnesi sem segist vonast til þess að allt sé á uppleið.

„Nú er heimsfaraldur að baki og auðvitað biður maður þess að friður komist á í veröldinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert