Aukið fjármagn í geðheilbrigðisþjónustu

Willum Þór Þórsson.
Willum Þór Þórsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að 260 milljónir á fjárlögum þessa árs verði nýttar til að efla þriðja stig geðheilbrigðisþjónustu og efla skólaheilsugæslu. 

Fjármagnið er eyrnamerkt heilsufarslegum aðgerðum til að vinna gegn neikvæðum áhrifum heimsfaraldursins. Framlagið er veitt tímabundið til þriggja ára og verður heildarupphæðin því rúmar 780 milljónir króna. 

Geðþjónusta Landspítala mun fá 94 milljónir á ári næstu þrjú árin. 75% af upphæðinni skal varið til að „styrkja þriðja stigs geðheilbrigðisþjónustu fyrir fólk með t.d. alvarlegt þunglyndi, kvíða, átröskun, áfallastreituröskun eða aðra alvarlega geðsjúkdóma,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu. 

Barna- og unglingageðdeildir Landspítala (BUGL) fær 55 milljónir árlega næstu þrjú ár og teymi barna- og unglingadeildar Sjúkrahússins á Akureyri fær 15 milljónir árlega næstu þrjú ár.

„Varið verður 96 milljónum króna á næsta ári til að efla og innleiða skólaheilsugæslu í framhaldsskólum árið 2023 og verður sama fjárhæð veitt til verkefnisins árin 2024 og 2025. Verkefnið á sér meðal annars stoð í geðheilbrigðisstefnu þar sem áhersla er lögð á geðræktarstarf og forvarnir og stuðning við börn og ungmenni í skólum,“ segir jafnframt í tilkynningunni. 

Nánar um málið á vef stjórnarráðsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert