Fundað í Nýju-Delhí

Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins og Piyush Goyal, viðskipta- og iðnaðarráðherra Indlands funduðu í vikunni í Nýju-Delhí, samkvæmt tilkynningu á vefsíðu stjórnarráðsins í dag.  

Á fundinum voru fríverslunarviðræður EFTA-ríkjanna við Indland til umræðu og sammæltust ráðherrann og ráðuneytisstjóri um að ljúka þyrfti viðræðunum sem fyrst til að efla viðskiptatækifæri þar á milli. 

Einnig ræddi íslenski ráðuneytisstjórinn við indverska ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins og voru góð samskipti Íslands og Indlands og samstarfsmöguleikar á sviði orku, mennta- og menningarmála, nýsköpunar og viðskipta til umræðu.  

Ráðuneytisstjórarnir ræddu auk þess samstarf ríkjanna tveggja á alþjóðavettvangi og fóru yfir þær áskoranir sem alþjóðakerfið stendur frammi fyrir.  

Nýsköpun á sviði jarðvarma

Ráðuneytisstjóri tók einnig þátt í jafnréttisviðburði sem var skipulagður af sendiráði Íslands í Nýju-Delhí í samstarfi við Indlandsdeild UN Women og UNESCO. Fjórir nemendur á vegum jafnréttisskóla GRÓ, þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu á Íslandi, tóku til máls á viðburðinum og fjölluðu um störf sín í landinu. 

Einnig var haldin málstofa um nýsköpun milli Ísland og Indlands þar sem ráðuneytisstjóri ávarpaði viðstadda. Málstofan var haldin í samstarfi við Invest India og indversk-íslenska viðskiptaráðið. Meðal þátttakenda voru Össur, Marel, Kerecis, ÍSOR/Verkís, GEGpower og ONGC, ríkisorkufyrirtæki Indlands og voru möguleikar samstarfs á sviði nýsköpunar og jarðvarma mikið til umræðu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert