Kjarasamningur laus ef loforðið verður ekki uppfyllt

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins (SGS), segir ávinning sveitarfélaga af nýjum …
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins (SGS), segir ávinning sveitarfélaga af nýjum kjarasamningi töluvert meiri en útgjöldin sem fylgja fríum skólamáltíðum. Samsett mynd/mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins (SGS), segir ávinning sveitarfélaga af nýjum kjarasamningi töluvert meiri en útgjöldin sem fylgja fríum skólamáltíðum. Mótmæli Sjálfstæðismanna séu augljóslega pólitísk.

Hóp­ur oddvita úr röðum Sjálfstæðisflokksins gagn­rýndi á fimmtudag að Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS) hefði við gerð kjara­samn­inga samþykkt ákvæði um gjald­frjáls­ar máltíðir í grunn­skól­um og það komi „í fang aðþrengdra sveit­ar­fé­laga“.

Vilhjálmur birti pistil um yfirlýsinguna á Facebook-síðu sinni en hann segir í samtali við mbl.is að hann sé farinn að finna fyrir kvíðboga um það hvort öll sveitarfélög hyggist efna loforð SÍS um fríar skólamáltíðir.

Treystir á 99% sveitarfélaga

„Þessar fríu skólamáltíðir eru klárlega stór þáttur í því að við gátum farið þessa leið sem við fórum. Við þurfum að hafa fast land undir fótum um að öll sveitarfélög, og þá hvert og hvert einasta, muni efna það loforð,“ segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is.

Breiðfylking stærstu stéttafélaga á enn eftir að ganga frá samningi við SÍS. Fylkingin hefur skuldbundið sig við að semja við sveitarfélögin með nákvæmlega sömu launastefnunni og við sömdum um við SA, að því gefnu að skólamáltíðir í yrðu gerðar fríar auk annarra skilyrða.

„Og það munum við gera en síðan munum við vera með forsenduákvæði til að verja okkur fyrir því ef einstök sveitar félöguppfylla ekki þetta loforð. Þá mun það sveitarfélag geta lent í því að kjarasamningur þess verði laus í byrjun næsta árs,“ útskýrir Vilhjálmur.

„En ég vil taka það skýrt fram að það sé enginn vafi um að 99% allra sveitarfélaga vítt og breitt um landið munu axla sína ábyrgð og standa við það loforð sem verkalýðshreyfingunni hefur verið lofað í þessum aðgerðapakka,“ segir hann.

Þarf að koma þeim á rétta blaðsíðu

„Þetta er greinilega pólitík sem þarna hefur blandast inn í þessar viðræður verkalýðshreyfingarinnar við stjórnvöld og sveitarfélög. Ég geri svo sem ekkert athugasemdir við þá pólitík en það er bara mikilvægt að þegar farið er í svona risastórt verkefni – eins og kjarasamningar til fjögurra ára eru – þá eru menn á sömu blaðsíðu þegar lagt er af stað,“ segir Vilhjálmur.

„Og það er greinilegt að það eru ekki allir á sömu blaðsíðu ef marka má þessa grein Sjálfstæðismanna og nú þarf að koma þeim á réttu blaðsíðuna, ef svo má að orði komast.“ 

„Enginn getur skotið sér undan ábyrgð“

„Ávinningur sveitarfélaganna af þessari leið sem er verið að fara er gríðarlegur, miklu, miklu, miklu meiri heldur nokkurn tímann þessi rétt rúmi milljarður sem sveitarfélögin munu þurfa að leggja á sig mér þessar skólamáltíðir.“

SGS hefur þegar tekið einn fund með samninganefnd sveitarfélaganna. Samninganefndir funda á fimmtudaginn. Vilhjálmur segist þegar hafa gert SÍS grein fyrir forsenduákvæðinu og hann sé búinn að senda þeim drög að því.

„Við fengum samtöl frá fullt af bæjarstjórum og sveitarstjórnarmönnum […] þar sem við vorum fullvissuð um það að sveitarfélög myndu taka þátt í þessu. Það var ástæðan fyrir því að við tókum ákvörðun um að skrifa undir og ganga frá þessu. Nú er bara mikilvægt að við tökumst öll í hendur og göngum frá þessu. Og enginn getur skotið sér undan ábyrgð í þeim efnum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert