Þrítugsafmælið ákveðin endurkoma

Stjórnin á æfingu í Hofi á Akureyri í dag.
Stjórnin á æfingu í Hofi á Akureyri í dag. mbl.is/Þorgeir

„Þetta kom þannig til að Þorvaldur Bjarni [Þorvaldsson, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands] hafði samband við okkur, hann átti hugmyndina að þessu og langaði að fá okkur,“ segir Grétar Örvarsson í samtali við Morgunblaðið.

Grétar og Sigríður Beinteinsdóttir, máttarstólpar hljómsveitarinnar Stjórnarinnar, sem nú er hálffertug, sitja fyrir svörum á Akureyri þar sem þau koma fram í Hofi klukkan 20 í kvöld ásamt Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, SinfoniaNord, en uppselt er á tónleikana – fyrir löngu meira að segja.

Hljómsveitin er þó ekki alnorðlensk heldur sameinast í henni hljóðfæraleikarar á Norðurlandi og frá Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Sigríður Beinteinsdóttir og Grétar Örvarsson á æfingu í Hofi í …
Sigríður Beinteinsdóttir og Grétar Örvarsson á æfingu í Hofi í dag. mbl.is/Þorgeir

Brjálað að gera

„Þetta kom upp í haust,“ tekur Sigríður við en þau Grétar eru nýkomin af æfingu með SinfoniaNord þegar þetta spjall á sér stað á þriðjudagskvöldið. „Okkur fannst þetta mjög spennandi og slógum til,“ heldur Sigríður áfram og segir þau Grétar ekki hafa setið auðum höndum upp á síðkastið. „Það er bara búið að vera brjálað að gera,“ segir hún til áhersluauka.

Frá stofnun sinni árið 1988 hefur Stjórnin aldrei lagst í dvala en Íslendingar af léttasta skeiði komnir muna glöggt þegar Sigríður og Grétar náðu langbesta árangri Íslands í Eurovision-söngvakeppninni, sem þá hafði sést, með Eitt lag enn í fjórða sæti 5. maí 1990 eftir röð hinna frægu sextándu sæta.

„Við áttum stórt afmæli í fyrra, 35 ára, og erum búin að vera að spila af krafti síðan við áttum 30 ára afmæli 2018,“ segir Sigríður og Grétar tekur undir, segir ákveðna endurkomu hafa átt sér stað á þrítugsafmælinu. „Við fórum að gefa út ný lög og erum búin að gefa út fimm ný lög núna á fimm árum. Vinsældirnar jukust um helming og við eignuðumst í raun nýjan aðdáendahóp – börn þeirra sem áður komu á tónleikana okkar,“ útskýrir hann.

mbl.is/Þorgeir

Föttuðu að þau ættu afmæli

„Við föttuðum það skyndilega í janúar 2018 að við ættum þrjátíu ára afmæli þannig að Grétar klippti saman helstu lögin okkar og ég fór að klippa saman eitthvert vídeó við þetta sem við settum svo í loftið og það fór bara allt einhvern veginn á fleygiferð,“ segir Sigríður.

Þið eruð með uppselda tónleika núna fyrir norðan. Er von um að fleirum verði bætt við?

„Ekki í þetta skiptið,“ svarar Grétar, „við erum auðvitað að prófa það í fyrsta skipti að spila með sinfóníuhljómsveit, þetta er mjög stórt verkefni sem tekið verður upp í hljóði og mynd, en sökum anna komum við því ekki við að hafa aðra tónleika til að mynda í Reykjavík.“

Ekki verður þó Stjórn-laust á höfuðborgarsvæðinu ef svo mætti segja því þau tvíeykið hyggjast endurtaka 35 ára afmælistónleikana síðan í fyrra í Reykjavík 28. september í haust auk þess sem Selfyssingar munu fá að lúta Stjórn á laugardaginn, 30. mars, en þá leika Sigríður og Grétar á Sviðinu sem svo heitir í sunnlenska höfuðstaðnum.

„Þetta er mjög gaman og það er æðislegt að standa fyrir framan svona stóra sveit,“ segir Sigríður af æfingunni með SinfoniaNord og ekki er örgrannt um að þau Grétar muni einnig skemmta sér og viðstöddum vel í kvöld.

Grétar kveður að lokum annað ótækt en að minnast á Þórð Magnússon, stórkostlegan útsetjara og hljómsveitarstjórnanda sem í þessu verkefni útsetur ásamt þeim Þorvaldi Bjarna og Michael Jóni Clarke en Þórður er sonur eins þekktasta tónlistarmanns landsins, Magnúsar Þórs Jónssonar, Megasar.

Viðtalið við Sigríði og Grétar birtist í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag.

mbl.is/Þorgeir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert