Emil þurft að bryðja verkjalyf til að spila

Eden Hazard og Emil Hallfreðsson í leik Íslands og Belgíu …
Eden Hazard og Emil Hallfreðsson í leik Íslands og Belgíu í Þjóðadeildinni í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert

Emil Hallfreðsson hóf í gær sprautumeðferð við hnémeiðslum sem hafa verið að angra hann undanfarið. Hann kom síðar en flestir aðrir til móts við íslenska fótboltalandsliðið í Saint-Brieuc vegna meiðslanna, eða seint síðustu nótt, og tók ekki þátt í æfingu í dag.

Emil kvaðst í samtali við mbl.is þurfa að fá sprautu í hnéð alls þrisvar sinnum, með viku millibili, en vonast til að þar með losni hann við meiðsli sem hafa truflað hann hjá Frosinone á Ítalíu.

„Ég er búinn að vera nokkuð slæmur síðustu tvær vikur, ef ég á að segja eins og er. Ég er að bryðja einhver verkjalyf til að geta spilað leiki, og það var komið að þeim tímapunkti að ég þyrfti að gera eitthvað almennilegt í þessu. Þessi meðferð er til þess. Ég má spila á milli þess sem ég fæ þessar sprautur, ef mér líður vel, og það er planið mitt. Ég lenti í svipuðu veseni fyrir tveimur árum og þá lagaðist þetta eftir þessar sprautur, svo ég vonast eftir því sama núna,“ segir Emil. En verður hann þá með í vináttulandsleiknum gegn heimsmeisturum Frakka á fimmtudaginn og gegn Sviss í Þjóðadeildinni á mánudag?

„Ég býst alla vega við því að geta pottþétt tekið þátt í leiknum gegn Sviss. Það er meiri spurning með leikinn við Frakka því tíminn er svo skammur fram að þeim leik, sem er líka vináttuleikur, en það kemur bara í ljós. Ég á eftir að ræða þetta við Erik [Hamrén þjálfara] og heyra hvernig hann sér þetta líka,“ segir Emil. Þessi reynslumikli miðjumaður er pollrólegur yfir því þó að hann þurfi væntanlega að sitja hjá í leik gegn ríkjandi heimsmeisturum.

„Auðvitað hefði það verið gaman en maður er ekki alveg á þeim stað enn þá. Maður er búinn að spila á móti hinum og þessum liðum í gegnum tíðina, en auðvitað væri gaman að vera með. Mestu máli skiptir þó að hnéð verði gott og maður komist í gott stand til að hjálpa liðinu eins og maður vill gera,“ segir Emil.

Nánar er rætt við Emil í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert