„Mér er ekki létt“

Kári Árnason (l.t.v.) glímir við Raphael Varane (l.t.h.) og Olivier …
Kári Árnason (l.t.v.) glímir við Raphael Varane (l.t.h.) og Olivier Giroud í leik Frakka og Íslendinga á Roudourou vellinum í Guingamp. AFP

„Mér er ekki létt. Ég vissi það fyrirfram þegar ég tók við starfinu að þessir fyrstu fimm leikir yrðu gríðarlega erfiðir og raunsætt mat væri að við myndum tapa þeim. Ég myndi því ekki segja að mér sé létt en ég er ánægður með gæðin sem við sýndum gegn heimsmeisturunum.“

Þetta segir Erik Hamrén, landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu, í samtali í Morgunblaðinu í dag. Eftir 6:0-tap gegn Sviss og 3:0-tap gegn Belgíu í fyrstu tveimur leikjum Svíans í starfi var umræðan um liðið skiljanlega ekki sérlega jákvæð og á samfélagsmiðlum tóku ýmsir þegar að velta fyrir sér hvort Hamrén væri verðugur arftaki Heimis Hallgrímssonar.

Frábær frammistaða Íslands í 2:2-jafnteflinu við Frakka í vináttulandsleiknum í Guingamp í fyrrakvöld ætti að veita Hamrén betra andrými og trú á að hann geti viðhaldið mögnuðum árangri síðustu ára. Sjálfur þvertók þjálfarinn þó fyrir að sér hefði létt við að sjá spilamennsku Íslands gegn Frökkum:

„Ég er bara vonsvikinn yfir því að þetta endaði í jafntefli. Ég er mjög ánægður með frammistöðuna. Ég vildi sjá gott hugarfar hjá öllu liðinu og það fékk ég. Ég vildi sjá okkur bæta varnarleikinn eftir veikleikana sem við sýndum gegn Sviss og Belgíu og það fékk ég. Ég er líka mjög ánægður með það hvað við sköpuðum mikið í sóknarleiknum. Við skoruðum tvö mörk en fengum líka fleiri mjög góð tækifæri. Ég er vonsvikinn yfir þessari niðurstöðu því mér fannst við geta unnið eftir að við komumst í 2:0. Vissulega bjóst ég ekki við því fyrirfram að verða vonsvikinn með 2:2-jafntefli við heimsmeistarana á útivelli en það er ég,“ segir Hamrén í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert