Hefðum getað spilað í hálftíma í viðbót

Brynjar Björn Gunnarsson þjálfari HK.
Brynjar Björn Gunnarsson þjálfari HK. mbl.is/Hari

„Ég er mjög svekktur,“ sagði Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, í samtali við mbl.is eftir 3:2 tap fyrir KR í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í kvöld. HK lenti 3:0 undir, klúðraði vítaspyrnu en skoraði svo tvö mörk í lokin sem dugði þó ekki til.

„Tilfinningin er að við fengum fleiri og sennilega betri færi en KR-ingarnir. Það var ekki fyrr en staðan var orðin 3:0, en engu að síður spiluðum við ágætlega. Við spiluðum fyrsta klukkutímann svolítið upp í hendurnar á KR-ingunum, en þegar við náðum að láta boltann rúlla síðasta hálftímann og fá fyrirgjafirnar þá fengum við færin,“ sagði Brynjar.

Hvað gekk þá á fyrsta klukkutímann?

„Við gerðum ekki það sem var sett upp með í fyrri hálfleik. Við spiluðum okkur í vandræði með lélegum sendingum, en urðum svo grimmari fram á við,“ sagði Brynjar og tók undir að það væri rándýrt að klúðra víti og dauðafærum í svona leik.

„Það er dýrt. Í stöðunni fengum við 1:0 og í stöðunni 0:0 áttum við skot í slá. Við sofnum hins vegar á verðinum, þeir skora fyrsta og annað markið einfalt og þriðja markið er svolítið rothögg,“ sagði Brynjar. En hvað getur hann tekið úr leiknum?

„Við kláruðum leikinn af krafti. Mér fannst við eiga meiri orku og hefðum getað spilað í hálftíma í viðbót,“ sagði Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert