Aðstæður breytast í hverri viku

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, hefur áhyggjur af þróun mála í …
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, hefur áhyggjur af þróun mála í Evrópu. mbl.is//Hari

„Við fylgjumst auðvitað bara grannt með aðstæðum og framvindu mála,“ sagði Guðni Bergsson, formaður KSÍ, í samtali við Morgunblaðið í gær þegar hann var spurður út í kórónuveirufaraldurinn sem nú geisar meðal annars á Ítalíu og hvaða áhrif hann hefur á íslenskan fótbolta.

EM í knattspyrnu fer fram um alla Evrópu dagana 12. júní til 12. júlí en Guðni vonast að sjálfsögðu til þess að mótinu verði ekki frestað vegna veirunnar en nú þegar hefur það komið til tals að fresta Ólympíuleikunum í Tókýó sem fara eiga fram í Japan í júlí og ágúst.

„Menn eru auðvitað byrjaðir að ræða sumarið á ýmsum vettvangi, ekki bara stjórnvöld og heilbrigðisstofnanir heldur líka fólk innan íþróttahreyfingarinnar. Það er verið að spila kappleiki fyrir luktum dyrum á Ítalíu sem dæmi þannig að staðan er alvarleg. Það er erfitt að svara einhverjum spurningum um framhaldið á þessum tiltekna tímapunkti því þetta er eitthvað sem þarf bara að koma betur í ljós þegar nær dregur sumri. Það mun þá eins koma í ljós til hvaða ráðstafana þarf að grípa ef allt fer á versta veg en auðvitað vonar maður að veiran verði búin að hægja eitthvað á sér á þessum tíma.

Við munum halda áfram að fylgjast grannt með gangi mála eins og önnur knattspyrnusambönd eru að gera. Ég trúi því og vona að sjálfsögðu að Evrópumótinu verði ekki frestað en þegar allt kemur til alls þá eru íþróttir til þess fallnar að skemmta okkur og öðrum. Ef veiran ógnar öryggi fólks og heilsu þá er það auðvitað mikilvægasti útgangspunkturinn í þessu og eitthvað sem þarf að taka lokaákvörðun út frá,“ sagði Guðni við Morgunblaðið.

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert