City heldur áfram að framlengja

Oleksandr Zinchenko ræðir við Pep Guardiola.
Oleksandr Zinchenko ræðir við Pep Guardiola. AFP

Daginn eftir að tilkynnt var að enski bakvörðurinn Kyle Walker hefði skrifað undir nýjan fimm ára samning við Englandsmeistara Manchester City hefur verið gefið út að annar fimm ára samningur hafi verið undirritaður hjá félaginu.

Nú er það úkraínski varnarmaðurinn Oleksandr Zinchenko, sem hefur skrifað undir nýjan samning og er nú bundinn þeim ljósbláu til ársins 2024. Zinchenko virtist vera á útleið fyrir ári síðan eftir að City samþykkti tilboð frá Wolves, en hann hafnaði því að fara og vildi sanna sig.

Eftir að Benjamin Mendy meiddist eftir áramót vann Zinchenko sér sæti í liði City og hefur nú verið verðlaunaður með nýjum samningi. Hann kom til City sumarið 2016 en var lánaður strax til PSV í Hollandi. Síðan þá hefur Zinchenko, sem er 22 ára gamall, verið í herbúðum City en ekki náð að brjótast inn í liðið fyrr en nú á síðustu mánuðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert