Gæti misst af Afríkumótinu eftir veislu í Dúbaí

Pierre-Emerick Aubameyang í leik með Arsenal.
Pierre-Emerick Aubameyang í leik með Arsenal. AFP

Óvíst er hvort Pierre-Emerick Aubameyang, fráfarandi fyrirliði Arsenal, leiki með Gabon á Afríkumótinu í knattspyrnu eins og til stóð.

Í dag var tilkynnt að Aubameyang hefði greinst með kórónuveiruna og þar með virðist ljóst að hann missi af allavega byrjun mótsins en hann er lykilmaður í liði Gabon.

Ekki bætir úr skák fyrir framherjann að myndskeið hefur birst af honum í veisluhöldum í Dubai um áramótin og talið er líklegt að þar hafi hann smitast af veirunni.

Aubameyang, sem er 32 ára, hefur skorað 68 mörk í 128 leikjum með Arsenal í úrvalsdeildinni en er kominn út í kuldann þar. Í  vetur hefur hann spilað fjórtán úrvalsdeildarleiki og skorað fjögur mörk en spilaði síðast 6. desember þegar hann kom inn á sem varamaður á 85. mínútu í leik gegn Everton. Hann var settur út úr liðinu eftir það vegna agabrota og settur af sem fyrirliði.

Hann er jafnframt fyrirliði landsliðs Gabon og hefur þar skorað 29 mörk í 71 landsleik. Gabon mætir Kómoros-eyjum í fyrsta leik Afríkumótsins í Kamerún næsta mánudag og er einnig í riðli með Gana og Marokkó.

Annar leikmaður Gabon, Mario Lemina sem leikur með Nice í Frakklandi, greindist jákvæður í skimum við komuna til Kamerún, sem og þjálfari liðsins, Anicet Yala. Þeir eru allir komnir í einangrun á hóteli liðsins og bíða niðurstöðu úr PCR-prófum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert