Everton þurfti framlengingu gegn B-deildarliði

Everton þurfti að hafa fyrir hlutunum gegn Hull.
Everton þurfti að hafa fyrir hlutunum gegn Hull. AFP

Everton er komið í 4. umferð enska bikarsins í fótbolta eftir 3:2-útisigur á B-deildarliðinu Hull City í 3. umferðinni í dag. Réðust úrslitin í framlengingu.

Tyler Smith kom Hull yfir strax á 1. mínútu en Everton svaraði með mörkum frá Demarai Gray og André Gomes og var staðan í hálfleik 2:1. Varamaðurinn Ryan Longman jafnaði fyrir Hull á 71. mínútu og því þurfti að framlengja. Andros Townsend reyndist hetja Everton því hann skoraði sigurmarkið á 99. mínútu.

Southampton er einnig komið áfram eftir sigur á B-deildarliði en suðurstrandarliðið vann 3:2-útisigur á Swansea í Wales, þrátt fyrir að vera manni færri frá 30. mínútu.

Nathan Redmond kom Southampton yfir á 8. mínútu en Yan Valery fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 39. mínútu. Swansea nýtti sér liðsmuninn því Joel Piroe jafnaði á 77. mínútu og tryggði Swansea framlengingu.

Jan Bednarek kom Swansea yfir þegar hann skoraði sjálfsmark á 94. mínútu en Mohamed Elyounoussi og Shane Long svöruðu fyrir Southampton og tryggðu úrvalsdeildarliðinu sæti í 4. umferðinni.

Þá vann C-deildarliðið Plymouth Argyle 1:0-útisigur á Birmingham úr B-deildinni í framlengdum leik. George Friend fékk tvö gul spjöld á tíu mínútna kafla um miðjan seinni hálfleik og Plymouth nýtti sér liðsmuninn því Ryan Law skoraði sigurmarkið á 104. mínútu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert