Ronaldo og félagar í vandræðum

Diego Godín fagnar marki sínu en Cristiano Ronaldo er ekki …
Diego Godín fagnar marki sínu en Cristiano Ronaldo er ekki skemmt. AFP

Atlético Madríd fer með 2:0-forskot til Tórínó eftir sigur á Juventus í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í Madríd í kvöld. Staðan í hálfleik var markalaus en Atlético lék afar vel í seinni hálfleik. 

Heimamenn í Atlético voru búnir að fá fjölmörg færi áður en José Giménez og Diego Godín skoruðu með fimm mínútna millibili seint í síðari hálfleik og tryggðu Atlético verðskuldaðan sigur. 

Álvaro Morata skoraði löglegt mark sem dæmt var af, Diego Costa brenndi af dauðafæri og Antoine Griezmann skaut í slána, áður en Giménez skoraði loks fyrsta markið. 

Cristiano Ronaldo komst næst því að skora fyrir Juventus en boltinn fór rétt fram hjá eftir fína tilraun úr aukaspyrnu í fyrri hálfleik. 

Liðin mætast aftur 12. mars og þarf Juventus í það minnsta að skora tvö mörk til að eiga möguleika á að fara áfram í átta liða úrslit. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert