Markaskorarinn kærður fyrir líkamsárás

Michael Santos í baráttunni við Christopher Jullien á Celtic Park …
Michael Santos í baráttunni við Christopher Jullien á Celtic Park í gær. AFP

Michael Santos, leikmaður danska knattspyrnufélagsins FC Kaupmannahafnar, hefur verið kærður fyrir líkamárás en það eru skoskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Atvikið átti sér stað í gær þegar FCK heimsótti Celtic í síðari leik liðanna í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar á Celtic Park í Glasgow í gær.

Leiknum lauk með 3:1-sigri FCK sem er komið áfram í sextán liða úrslit keppninnar, samanlagt 4:2. Santos skoraði fyrsta mark leiksins á 51. mínútu og skoskir fjölmiðlar segja að úrúgvæski framherjinn hafi fagnað með því að ráðast á lögregluþjón sem var við störf á vellinum. Santos er ekki sá eini sem hefur verið kærður heldur var 42 ára gamall starfsmaður FCK einnig kærður í tengslum við árásina.

„Tveir menn, 42 ára og 26 ára, hafa verið kærður í tengslum við líkamárás,“ segir í tilkynningu frá skosku lögreglunni. Samkvæmt fjölmiðlum í Danmörku flugu allir starfsmenn og leikmenn FCK heim til Danmerkur eftir leikinn í gær en óeirðir brutust einnig út meðal stuðningsmanna danska liðsins og voru tveir Danir og sex Skotar handteknir eftir leik vegna slagsmála og almennra óeirða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert