Frábær hringur í Kenía

Valdís Þóra Jónsdóttir sýndi sitt rétta andlit í Kenía í …
Valdís Þóra Jónsdóttir sýndi sitt rétta andlit í Kenía í morgun. Ljósmynd/Golf.is

Atvinnukylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir spilaði frábært golf á þriðja hring sínum á lokamóti Evrópumótaraðarinnar en leikið er á Vipingo Ridge-vellinum í Kenía. Valdís Þóra lék á samtals 69 höggum eða þremur höggum undir pari.

Valdís byrjaði ekkert sérstaklega vel og fékk tvo fugla og þrjá skolla á fyrstu níu holunum. Þar á eftir fylgdu fimm fuglar og tveir skollar og hún er á samtals þremur höggum yfir pari eftir fyrstu þrjá keppnisdagana.

Íslenski kylfingurinn er í 26.-34. sæti sem stendur en ennþá eiga margir kylfingar eftir að ljúka leik. Julia Engström frá Svíþjóð er með nokkuð afgerandi forystu í fyrsta sæti á þrettán höggum undir pari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert