Tvöföld ánægja hjá forsetanum

Bræðurnir Patrekur og Guðni Th. Jóhannessyni.
Bræðurnir Patrekur og Guðni Th. Jóhannessyni. mbl.is/RAX

Af öllum þeim sem réðu sér vart fyrir kæti á fjölum Laugardalshallar í kvöld eftir að íslenska landsliðið tryggði sér keppnisrétt á HM á næsta ári var forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, með þeim allra glaðbeittustu. Guðni lét sig að sjálfsögðu ekki vanta í Höllina í kvöld og studdi dyggilega á bak við íslenska landsliðið þegar það lagði Litháa. Um tvöfalda sigurstund var að ræða hjá Guðna.

Guðni ljómaði í leikslok því þótt honum væri sigur íslenska landsliðsins vissulega mikilvægastur og keppnisrétturinn á HM þá gat Guðni ekki leynt gleði sinni yfir að Patrekur bróðir hans stýrði austurríska landsliðinu til sigurs á Hvít-Rússum, 31:26, sem varð til þess að Patrekur fer með austurríska landsliðið á HM á næsta ári. Austurríska liðið lék nánast á sama tíma og það íslenska.

Guðni sagði í sigurgleðinni í Laugardalshöll í kvöld að það væri á hreinu að hann myndi ekki láta sig vanta á HM sem fram fer í Danmörku og í Þýskalandi í janúar.  Fyrst og síðast til að styðja íslenska landsliðið en hann myndi einnig reyna að fylgjast með bróður sínum og hans mönnum einnig væri þess kostur.

Austurríska landsliðið gerði jafntefli við Hvít-Rússa í fyrri leiknum sem fram fór í Minsk um síðustu helgi, 28:28. Um skeið átti austurríska liðið undir högg að sækja í leiknum í kvöld sem fram fór Vínarborg. Það var m.a. þremur mörkum undir í hálfleik, 16:13. Með framúrskarandi síðari hálfleik tókst Patreki og lærisveinum að snúa taflinu við.

Þetta verður í annað sinn sem Patrekur stýrir austurríska landsliðinu á HM en liði tók einnig þátt í mótinu í Katar í ársbyrjun 2015. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert