Munurinn á áhugamönnum og atvinnumönnum

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Val, var nokkuð sáttur með sitt …
Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Val, var nokkuð sáttur með sitt lið þrátt fyrir tap í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Við töpuðum einfaldlega fyrir betra liði hér í kvöld,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, í samtali við mbl.is eftir 31:24-tap liðsins gegn Skuru í síðari leik liðanna í 1. umferð EHF-bikarsins í handknattleik í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld.

Fyrri leik liðanna lauk með 23:22-sigri Vals á föstudaginn síðasta á Hlíðarenda. Skuru vann því einvígið samanlagt 53:47 og er áfram í næstu umferð á meðan Valsliðið er úr leik.

„Þær eru með frábært lið enda deildarmeistarar í Svíþjóð og ég held að við höfum aðeins séð muninn á áhugamönnum og atvinnumönnum hér í kvöld. Við gerum of mörg mistök sóknarlega og það er dýrt gegn jafn góðu liði og Skuru. Ég vil ekki kenna einhverju stressi um þessi úrslit, þær eru mjög líkamlega sterkar og við vorum mikið að leita í snertingar við þær og gefa lélegar sendingar og þær bara gengu á lagið og nýttu sér okkar mistök.“

Margir ungir leikmenn Vals fengu tækifæri í leiknum, þar á meðal dóttir Ágústar, Ásdís Þóra Ágústsdóttir, en hún skoraði sex mörk í leiknum og var næstmarkahæst í Valsliðinu.

„Þetta er mikil reynsla fyrir allt liðið og sérstaklega yngri leikmennina. Það voru stelpur sem fengu tækifæri í kvöld sem eru ennþá að spila í 4. flokki og það er gríðarleg reynsla fyrir þær. Við vorum ekki alveg fullmannaðar og erum í smá basli þessa stundina en frammistaðan var á köflum ágæt í leiknum.“

Margir reynsluboltar frá síðustu leiktíð hafa gefið það út að þeir séu hættir handboltaiðkun og Íslandsmeistararnir því með breytt lið frá síðustu leiktíð.

„Það voru margir ungir leikmenn sem fengu tækifæri í þessu einvígi og við erum hægt og rólega að auka breiddina í liðinu. Við erum ennþá að fínpússa liðið og það hafa orðið miklar breytingar á leikmannahópnum frá því á síðustu leiktíð og það mun taka tíma að púsla þessu saman,“ sagði Ágúst Þór í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert