Skölluð af þriggja ára gömlum syni sínum

Heidi Löke, fyrir miðju, fagnar marki ásamt liðsfélögum sínum.
Heidi Löke, fyrir miðju, fagnar marki ásamt liðsfélögum sínum. AFP

Heidi Löke, hin sigursæla norska landsliðskona í handknattleik, hefur ekki getað spilað handbolta síðan í desember eftir að hafa orðið fyrir slysi þegar hún lék sér við þriggja ára gamlan son sinn.

Síðasti leikur Löke fyrir jólin var úrslitaleikur Evrópumótsins þar sem hún og samherjar hennar í norska landsliðinu fögnuðu enn einum stóra titlinum með því að sigra Frakkland 22:20 í úrslitaleiknum í Herning.

Hún sagði frá atvikinu sem átti sér stað í jólafríinu og sagði það afar kjánalegt. „Ég var að leika við Oscar og hann skaut höfðinu eldsnöggt aftur um leið og ég hallaði mér aðeins fram. Ég fékk fossandi blóðnasir og sársaukinn var mikill," sagði Löke við VG.

Sonur hennar hitti á viðkvæman stað því Löke hefur átt í vandræðum með nefið á sér síðustu árin. Hún nefbrotnaði illa fyrir tæpum tveimur árum og þurfti í kjölfarkið að fara í talsverða aðgerð þar sem sjö lítil brot fundust í nefinu. Enn á ný varð hún að taka sér mánaðar hlé í haust eftir að hafa fengið högg í landsleik gegn Danmörku.

„Ég finn mikinn æðaslátt í nefinu og fæ sífellt höfuðverki sem vara í nokkurn tíma. Sársaukinn var gríðarlegur fyrst en það fer skánandi. Það er enn ekki þannig að maður geti harkað þetta af mér. Ég prófaði að hlaupa hratt fyrir tveimur dögum og það fór allt í sama farið. En þetta kemur, ég þarf bara að vera þolinmóð," sagði Löke við VG.

Löke leikur með Vipers Kristiansand sem á framundan tvo stórleiki gegn Odense frá Danmörku í Meistaradeildinni og ljóst er að hún missir af þeim. Þá er stutt í undankeppni Ólympíuleikanna og hæpið að Löke nái að spila þar með norska liðinu.

Hin 38 ára gamla Löke ætlar ekki að láta þetta stöðva sig og alls ekki binda endi á  ferilinn. „Nei, ég óttast það ekki. Ég er orðin óþolinmóð en þetta mun líða hjá. Ég get hlaupið rólega og kastað boltanum. Ég held mér í formi, en ég sakna þess gríðarlega að geta ekki spilað," sagði Heidi Löke sem hefur orðið fjórum sinnum Evrópumeistari, tvisvar heimsmeistari og einu sinni Ólympíumeistari með norska landsliðinu undir stjórn Þóris Hergeirssonar. Þá hefur hún unnið Meistaradeild Evrópu einu sinni með Larvik og þrisvar með Györ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert