Of mikið af mistökum til að vinna

Stefán Arnarsson á hliðarlínunni í dag.
Stefán Arnarsson á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Stefán Arnarsson, þjálfari Fram, var auðvitað ekki ánægður með tap sinna kvenna í dag er liðið mætti ÍBV í 11. umferð Olísdeildar kvenna. Stefán hafði unnið sigur á ÍBV níu leiki í röð en þeirri sigurgöngu lauk með 26:24 sigri heimakvenna.

„ÍBV byrjaði betur, þær komust í 6:2, síðan varð þetta 9:5, í hálfleik var þetta 12:11 og við komumst yfir í upphafi seinni hálfleiks í 12:15. Í stöðunni 14:16 fáum við hraðaupphlaup sem við klúðrum, þar hefðum við getað komið þessu í 14:17 en í staðinn komu þær með áhlaup. Við gerðum síðan of mikið af mistökum til að vinna þennan leik.“

Framkonur keyrðu virkilega vel til baka í leiknum en fyrsta hraðaupphlaupsmark ÍBV kom ekki fyrr en kortér var eftir og þá komu tvö í röð. „Þar náðum við ekki skotum á markið og það er virkilega dýrt í svona leik.“

Fram hefur eins og áður segir unnið níu síðustu leiki gegn ÍBV og verið með gott tak á þeim „Maður hefur ekki oft tapað í Vestmannaeyjum, þetta er frábært íþróttafélag og gott lið þannig að það er ekkert óeðlilegt að maður tapi einhvern tímann hérna.“

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir átti virkilega góðan leik í liði ÍBV, hún skoraði mikilvæg mörk og markið sem gerði út um leikinn. Samtals gerði hún átta mörk og átti einnig góðar stoðsendingar. „Við náðum að stoppa Birnu og Sunnu ágætlega en Hanna var frábær, hún var okkur erfið í dag.“

KA/Þór og Haukar gerðu jafntefli fyrir norðan og misstu Framkonur því af tækifæri til þess að tylla sér á toppinn.

„Við ætluðum að vinna og viljum klárlega vera á toppnum. Þetta er mjög jafnt og það verður mjög skemmtilegt að sjá hvernig þessi úrslitakeppni raðast upp og hvaða sex lið fara áfram. Við erum í ágætum málum þrátt fyrir þetta, við verðum að spila betur vegna þess að ég er með frábæra leikmenn sem ég veit að geta betur.“

Þórey Rósa Stefánsdóttir og Karólína Bæhrenz Lárusdóttir voru fjarri góðu gamni í dag en Lena Margrét Valdimarsdóttir spilaði þó vel í hægra horninu. „Lena var frábær en Karólína var í dag að auðga heiminn, það er mikilvægt því lífið er ekki bara handbolti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert