Þurfum að finna dýrið í okkur á ný

Aron Pálmarsson sækir að Haukum í gær.
Aron Pálmarsson sækir að Haukum í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásbjörn Friðriksson, leikmaður FH, var afar svekktur eftir fyrsta tap liðsins á heimavelli í deildinni þegar Haukar unnu Hafnarfjarðarslaginn í úrvalsdeildinni í handknattleik í Kaplakrika í gær. 

Spurður út í hvað hefði af mbl.is sagði FH-ingurinn:

„Við spilum ekki góða vörn í fyrri hálfleik og erum óagaðir í skotum í sókninni. Það gerir það að verkum að við fáum ódýr mörk í bakið. Þegar við stilltum upp í vörn þá gekk okkur ágætlega en þá var markvarslan ekki nógu góð. Síðan í seinni hálfleik kom markvarslan inn og þá klikkar eitthvað annað í staðinn."

Ásbjörn Friðriksson.
Ásbjörn Friðriksson. mbl.is/Óttar Geirsson

Þið jafnið í 23:23 og komist yfir og nóg eftir af leiknum. Á þessum tímapunkti leit út eins og FH væri komið á gríðarlegt skrið en ykkur tekst ekki að brjóta Hauka?

„Við stöndum vörnina ágætlega og þá fá þeir víti og við brottvísun. Þegar við vorum komnir með leikinn í hendurnar þá einhvern veginn afhendum við þeim aftur frumkvæðið með því að klúðra vítum og láta reka okkur útaf."

Valsmenn eru einu stigi á eftir ykkur. Næsti leikur hjá ykkur er Grótta og svo KA í lokaleik í Kaplakrika. Þið ætlið ykkur væntanlega að klára deildina á toppnum?

„Burtséð frá því hvort við ætlum okkur að vinna deildarmeistaratitil eða ekki þá þurfum við að spila heilsteyptari leik heldur en í dag og það er stóra málið fyrir okkur því við höfum verið góðir í því í vetur. Við þurfum að finna aftur dýrið í sjálfum okkur,“ bætti Ásbjörn við í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert