Við mætum fullir sjálfstrausts

Birkir Bjarnason ræðir við fjölmiðlamenn í Kabardinka í dag.
Birkir Bjarnason ræðir við fjölmiðlamenn í Kabardinka í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Birkir Bjarnason landsliðsmaður í knattspyrnu sagði við mbl.is í Kabardinka í morgun að hann teldi möguleikana á að Ísland kæmist í sextán liða úrslit heimsmeistaramótsins mjög góða, þrátt fyrir ósigurinn gegn Nígeríu í gærkvöld, 0:2, í Volgograd.

„Já, ég met möguleika okkar mjög góða á að vinna Króata. Um leið vonum við að Argentínumenn geri sitt og vinni Nígeríu. Við erum með alla okkar menn að mestu heila og svo hjálpar það okkur pottþétt að við unnum Króatana síðast þegar við mættum þeim. Við komum því í leikinn fullir sjálfstrausts og Króatarnir gera sér fulla grein fyrir því hvað við getum gert," sagði Birkir.

Hann á hinsvegar von á að Króatar leggi allt í leikinn þó þeir séu þegar búnir að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitunum, og hyggist hvíla einhverja af lykilmönnum sínum.

„Þeir vilja örugglega vinna riðilinn og ég reikna með því að þeir komu af fullum krafti í leikinn. Samt verður það vonandi eitthvað í þeirra huga að þeir séu þegar komnir áfram. Það skiptir engu máli þó þeir hvíli einhverja menn því þeir eru með gríðarlega sterkan hóp.

Við þurfum því að einbeita okkur að okkur sjálfum, gera okkar besta og vona að það verði nóg til að vinna, og þá um leið að gera það sama og Argentínumenn í sínum leik," sagði Birkir.

Birkir Bjarnason og Jón Daði Böðvarsson í baráttunni í vítateig …
Birkir Bjarnason og Jón Daði Böðvarsson í baráttunni í vítateig Nígeríu í gærkvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann kvaðst vera í góðu standi eftir átökin í hitanum í Volgograd í gærkvöld.

„Já, mér líður mjög vel og betur en eftir Argentínuleikinn og held að hópurinn sé í heildina mjög ferskur. Við fáum styttri tíma til undirbúnings en síðast en erum vanir slíku og það skiptir ekki máli," sagði Birkir Bjarnason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert