„Þetta var einn besti dagur lífs okkar“

Agnar og Eva Rakel fengu frábæran og sólríkan dag þegar …
Agnar og Eva Rakel fengu frábæran og sólríkan dag þegar þau giftu sig í fyrra. Ljósmynd/Elísabet Blöndal

Hjónin Agnar Friðbertsson og Eva Rakel Jónsdóttir gengu í hjónaband í Háteigskirkju og héldu eftir það sveitaveislu í Kjós. Dagurinn var fullkominn í alla staði en eitt það fyrsta sem Agnar og Eva Rakel ákváðu þegar þau trúlofuðu sig árið 2018 var að fá Helgu Brögu Jónsdóttur til að stýra veislunni.

Eva Rakel sem er 32 ára starfar í tekjustýringu hjá Icelandair en Agnar sem er 35 ára er hljóðupptökustjóri í kvikmyndagerð. Ástin kviknaði hins vegar þegar þau voru ekki búin mennta sig fyrir framtíðarstörf sín og störfuðu í Levi’s-búðinni. „Við tókum smátíma í að kynnast en vorum formlega orðin par nokkrum mánuðum seinna. Við fluttum í ár til London árið 2013, og búum núna í þriðju íbúðinni okkar í Hlíðunum í Reykjavík. Við eigum tvö yndisleg börn, stúlku fædda 2018 og dreng fæddan 2020,“ segir Eva Rakel.

Agnar og Eva Rakel trúlofuðu sig þegar yngra barn þeirra var sex mánaða. „Hann fór á skeljarnar í fjölskyldufríi á Flórída. Það kom mér mjög mikið á óvart þegar hann fór á skeljarnar og bónorðið var einstaklega vel heppnað. Bónorðið var þannig að ég og dóttir okkar ásamt systur minni vorum að rölta í hverfinu og rákumst á svo fallega blómaskreytta rólu sem var líklegast skreyting úr brúðkaupi sem var í hverfinu kvöldið áður. Agnar ákvað að nýta tækifærið og skella sér á skeljarnar þegar ég hélt að værum bara að fara að taka mynd með dóttur okkar. Við vorum svo einstaklega heppin að foreldrar mínir náðu þessu öllu á mynd enda hélt ég að tilefnið væri ekkert annað en smá myndataka í fallegri rólu með dóttur okkar,“ segir Eva Rakel um bónorðið.

„Við vorum alltaf ákveðin í því að láta ekki of langt líða frá trúlofun til brúðkaups. Hins vegar kom drengurinn okkar nokkuð óvænt til okkar um vorið 2020. Við vildum heldur ekki eiga of ung börn þegar við myndum loksins halda brúðkaup. Okkur fannst við fyrst tilbúin til þess þegar drengurinn okkar var að verða þriggja ára, árið 2023. Okkur hefur alltaf langað að halda stórt og flott brúðkaup og að okkar mati hálfnauðsynlegt þegar fólk hefur eignast börn og íbúð saman. Við vorum ekki gift fyrir eins og margir velja að gera. Mér leið eins og ef við hefðum gift okkur hjá sýslumanni og lofað veislu seinna þá hefði ekkert endilega orðið úr því þannig að við skelltum okkur bara í það að gifta okkur og halda veisluna strax og sjáum sko alls ekki eftir því, þetta var einn besti dagur lífs okkar.“

Gestirnir tóku á móti hjónunum í Kjósinni.
Gestirnir tóku á móti hjónunum í Kjósinni. Ljósmynd/Elísabet Blöndal

Bæði borgar- og sveitabrúðkaup

Eva Rakel segir að augljós ástæða hafi legið fyrir því að þau Agnar gengu í hjónaband í Háteigskirkju. Þau búa við hliðina á kirkjunni og þykir kirkjan einstaklega falleg.

„Ég vildi hafa athöfnina nokkuð persónulega og fékk vinkonu mína Grétu Morthens til þess að syngja tvö falleg lög í athöfninni. Hún söng lögin Með þér eftir Bubba Morthens og Stand by me. Það var ótrúlega dýrmætt að giftast ástinni minni, horfa yfir kirkjuna og sjá alla sína nánustu á meðan besta vinkona mín söng falleg lög, stund sem ég gleymi aldrei. Eftir athöfnina gengum við út og allir gestirnir tóku á móti okkur í tröppunum á meðan heyrðist í kirkjubjöllunum. Við keyrðum síðan burt á gulum þaklausum fornbíl og vinkuðum öllum og sólin skein, við vorum svo heppin að fá dásamlegt veður,“ segir Eva Rakel um athöfnina.

Á sama tíma og hjónin giftu sig í uppáhaldskirkjunni sinni í borginni fór veislan fram uppi í sveit. Eftir athöfn var haldið upp í Kjós þar sem veislan fór fram í félagsgarðinum Dreng í Kjós.

„Við völdum þann stað vegna þess að við höfðum sjálf farið í brúðkaup þar áður og vorum mjög heilluð af húsinu og náttúrunni í kring. Við erum samt bæði frekar mikil borgarbörn og förum skammarlega lítið út fyrir Reykjavík, en okkur fannst samt báðum eitthvað svo ótrúlega heillandi að halda sveitabrúðkaup. Við höfðum smátíma á milli athafnar og veislunnar eða um einn og hálfan tíma svo að gestirnir gætu komið sér á staðinn í rólegheitum,“ segir Eva Rakel. Hún segir að fólk hafi ýmist gist í bústöðum nálægt veislusalnum, tjaldað á tjaldstæði fyrir framan veislugarðinn auk þess sem þau hafi boðið upp á tvær rútuferðir eftir miðnætti fyrir gesti sem vildu fá sér í glas en kusu að gista í bænum.

Hjónin giftu sig í Háteigskirkju en þau búa í nágrenninu.
Hjónin giftu sig í Háteigskirkju en þau búa í nágrenninu. Ljósmynd/Elísabet Blöndal

Það elska allir Helgu Brögu

Þegar gestir mættu í veisluna var boðið upp á súkkulaðihúðuð jarðarber og prosecco. Í veislunni sjálfri var boðið upp á þriggja rétta máltíð. „Í forrétt buðum við upp á nokkra smárétti á disk, í aðalrétt buðum við upp á íslenska nautalund og lamba rib-eye ásamt meðlæti. Í eftirrétt voru litlar bollakökur, franskir súkkulaðikökubitar og litlir sítrónutart-bitar frá 17 sortum. Við fengum þá sem leigðu okkur salinn til að sjá um matinn í veislunni fyrir utan eftirrétt. Það var hárrétt ákvörðun, miklir fagmenn þar á ferð sem unnu matseðilinn einstaklega vel með okkur. Á miðnætti buðum við upp á trufluparmesanfranskar sem vöktu mikla lukku hjá gestum. Ég mæli eindregið með miðnætursnarli.“

Helga Braga Jónsdóttir var veislustjóri í brúðkaupsveislunni en það var eitt það fyrsta sem hjónin ákváðu eftir að þau trúlofuðu sig árið 2018. „Við þekkjum hana hvort úr sinni áttinni, ég vann með Helgu sem flugfreyja hjá WOW air og Icelandair, en Aggi vinnur í kvikmyndagerð og hefur margoft unnið með Helgu í allskonar verkefnum. Okkur fannst því kjörið að hafa hana sem veislustjóra þar sem hún þekkir okkur og það elska auðvitað allir Helgu Brögu,“ segir Eva Rakel.

Helga Braga var veislustjóri.
Helga Braga var veislustjóri. Ljósmynd/Elísabet Blöndal

„Við fengum Valdimar söngvara til þess að taka nokkur lög milli rétta sem var alveg dásamlegt, hann er með svo ljúfa rödd og er í einstöku uppáhaldi hjá okkur báðum. Einnig voru nokkrir vinir okkar og fjölskyldumeðlimir með ræður og skemmtiatriði sem komu okkur hjónunum skemmtilega á óvart. Eftir matinn tók Þórunn Antonía sem var gestur í brúðkaupinu tvö lög til að keyra partíið í gang. Emmsjé Gauti kom síðan og tókum við fyrsta dansinn sem hjón við lagið Klisja. Það var einstaklega vel heppnað og stund sem við gleymum aldrei. Hann hélt síðan uppi stuðinu eitthvað áfram og síðan hélt DJ-inn hans partíinu áfram fram á nótt. Það var einstaklega heitt þetta júlíkvöld og voru gestirnir okkar mikið fyrir utan veislugarðinn að blanda geði hvert við annað sem var akkúrat það sem við vildum,“ segir Eva Rakel.

Eva Rakel skipti um kjól um kvöldið og frábært tónlistarfólk …
Eva Rakel skipti um kjól um kvöldið og frábært tónlistarfólk hélt partíinu gangandi fram á nótt. Ljósmynd/Elísabet Blöndal

Fann draumkjólinn í Orlando

Eva Rakel var með nokkuð ákveðna hugmynd um hvernig kjól hún var að leita að en hana langaði að gifta sig í síðerma kjól með flegnu hálsmáli.

„Ég var einnig mjög tímanlega í að finna kjól en ég fann hann óvænt í brúðarkjólabúð í Orlando. Ég fór í gamni með mömmu minni í tvær búðir í Orlando. Í fyrri búðinni sem ég fór í fann ég ekkert í áttina að því sem ég var að leita að en í seinni búðinni sem við fórum í fann ég draumakjólinn minn alveg óvænt. Um leið og ég mátaði hann vissi ég að þetta væri kjóllinn minn. Það vildi svo heppilega til að hann var akkúrat í minni stærð. Við vorum í um 40 mínútur inni í búðinni og löbbuðum út með kjól. Þetta var einstaklega óvænt og skemmtileg upplifun,“ segir Eva Rakel.

Agnar fékk fötin sín í Suitup. „Við vildum fá ljós og sumarleg jakkaföt. Við fórum í búðina og fengum toppþjónustu frá Agli sem er annar eigandi Suitup. Við upplifðum okkur bæði í mjög öruggum höndum hjá honum, algjör fagmaður fram í fingurgóma.“

Kjólinn fann Eva Rakel óvænt í Bandaríkjunum. Agnar keypti brúðkaupsjakkafötin …
Kjólinn fann Eva Rakel óvænt í Bandaríkjunum. Agnar keypti brúðkaupsjakkafötin í Suitup. Ljósmynd/Elísabet Blöndal
Agnar hafði sig til heima á meðan Eva Rakel fór …
Agnar hafði sig til heima á meðan Eva Rakel fór í hárgreiðslu og förðun. Ljósmynd/Elísabet Blöndal

Fagfólkið fullkomnaði daginn

Eva Rakel segir það hafa verið ómissandi að hafa góðan ljósmyndara og blómaskreyti. „Ég fékk hana Þórdísi Zophíu blómaskreyti til að hjálpa mér með skreytingar í salnum, með blómvönd, blómakransa, barmblóm. Ég mæli eindregið með því að ráða fagmann til að skreyta salinn. Ég ætlaði mér að gera það sjálf fyrst enda mikil blómakona og taldi mig vel geta það, en eftir smá umhugsun gat ég ekki hugsað mér að vera í stressi að skreyta, gera og græja kvöldið fyrir stóra daginn. Það var mjög þægilegt að fara heim snemma kvöldið áður og ná smá slökun fyrir svefninn. Hún sá til þess að salurinn væri einstaklega fallegur og var fram á kvöld að græja lokaatriðin. Það var hverrar krónu virði að fá aðila til að sjá um þessa hluti ásamt því að koma með blómvönd, blómahárkransa og barmblóm til okkar á sjálfan brúðkaupsdaginn,“ segir Eva Rakel.

„Einnig mæli ég með að velja ljósmyndara vel fyrir stóra daginn. Við fengum Elísabetu Blöndal ljósmyndara, og ég gæti ekki verið ánægðari með myndirnar sem hún tók af okkur. Það eru mjög margir færir ljósmyndarar á Íslandi, en með ólíkan stíl. Veldu einhvern sem tekur myndir sem tala til þín, hittu ljósmyndarann áður og ákveðið hvar myndatakan á að fara fram og hvernig myndir þið viljið leggja áherslu á.

Annað sem ég mæli með er að þiggja þá aðstoð sem býðst, það voru margir sem hjálpuðu okkur dagana fyrir brúðkaup að græja hitt og þetta, sem við vorum óendanlega þakklát fyrir. Ég mæli einnig með að hafa tæknimann á svæðinu, einhvern sem annaðhvort er gestur eða kunningi sem er í veislunni og græjar tæknilega hluti fyrir ræður, tónlistaratriði og þess háttar. Það getur ýmislegt komið upp og þá er gott að hafa fyrirfram ákveðinn aðila til að græja.“

Hugað var vel að öllum smáatriðum. Matseðillinn var á borðum …
Hugað var vel að öllum smáatriðum. Matseðillinn var á borðum og tónaði hann vel við skreytingarnar. Ljósmynd/Elísabet Blöndal
Borðin voru fallega skreytt.
Borðin voru fallega skreytt. Ljósmynd/Elísabet Blöndal
Þórdís Zophía gerði brúðarvöndinn og blómaskreytingarnar.
Þórdís Zophía gerði brúðarvöndinn og blómaskreytingarnar. Ljósmynd/Elísabet Blöndal



Er þakklát veðurguðunum

Kom eitthvað á óvart á brúðkaupsdaginn?

„Í rauninni ekki, það gekk allt eins og í sögu eins klisjulega og það hljómar. Ég var búin að vera mjög stressuð með veðrið dagana og nokkrum vikum fyrir daginn, og skoðaði veðurspána líklega 30 sinnum á hverjum degi. Ég veit vel að veðrið er eitthvað sem maður stjórnar ekki og dagurinn getur verið dásamlegur þótt veðrið sé ekki gott. En ég varð gjörsamlega heltekin af því að fá fínt veður, og það rættist svo heldur betur. Dagurinn var einn sá heitasti þetta sumar og á tímapunkti var eiginlega of heitt í veislusalnum. Ég verð ævinlega þakklát veðurguðunum fyrir þennan dag. Ég var einnig mjög stressuð fyrir því að ná ekki að sofna af stressi fyrir stóra daginn en sem betur náði ég ágætis svefni og var svo einstaklega ánægð þegar ég vaknaði úthvíld og tilbúin í stóra daginn.“

Aðspurð segir Eva Rakel erfitt að velja hvað stóð upp úr á brúðkaupsdeginum sjálfum og erfitt að velja eitthvað eitt. Stemningin, veðrið, veislustjórn, tónlistaratriðin, skemmtiatriði og ræður frá gestum. Allt!

Hjónin keyrðu nýgift úr brúðkaupinu á glæsilegum fornbíl. Eftir athöfnina …
Hjónin keyrðu nýgift úr brúðkaupinu á glæsilegum fornbíl. Eftir athöfnina fóru allir upp í Kjós þar sem veislan fór fram. Ljósmynd/Elísabet Blöndal

Gekk allt upp eða var eitthvað sem þið hefðuð viljað gera öðruvísi?

„Kannski bara það að vera minna að stressa mig á hlutum sem ég get ekki stjórnað eins og veðri, og þótt það séu einhverjir smáhlutir sem maður vildi hafa gert öðruvísi þá var dagurinn heilt yfir svo vel heppnaður að ég velti mér ekkert upp úr því.“

Eruð þið með ráð fyrir verðandi brúðhjón?

„Að njóta undirbúningsins. Á tímapunkti hlakkaði ég mjög til þess að „klára þetta“. En núna í dag sakna ég þess mjög mikið að vera skoða blóm, brúðarkjóla, boðskort, skreytingar, hárgreiðslur, förðun á Pinterest og ákveða hitt og þetta. Ég hlakka til að hjálpa vinkonum mínum sem eiga eftir að gifta sig í ferlinu þeirra. Þetta getur verið stressandi ferli að plana brúðkaup en njótið þess líka,“ segir Eva Rakel að lokum.

Dóttir Agnars og Evu Rakelar var sex mánaða þegar bónorðið …
Dóttir Agnars og Evu Rakelar var sex mánaða þegar bónorðið kom. Sonur þeirra bættist í fjölskylduna áður en þau létu verða að því að gifta sig. Ljósmynd/Elísabet Blöndal
Mæðgurnar höfðu sig til saman en frumburðurinn var klædd í …
Mæðgurnar höfðu sig til saman en frumburðurinn var klædd í hvítt í stíl við móður sína. Ljósmynd/Elísabet Blöndal
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál