„Stolt að fá að starfa í sjávarútvegi“

Heiðrún Lind Marteinsdóttir er nýr framkvæmdastjóri SFS.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir er nýr framkvæmdastjóri SFS.

Framkvæmdastjóri SFS segir rekstur í sjávarútvegi hafa gengið vel undanfarin ár en varhugavert sé að ráðast í róttækar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Rekstur fyrirtækja í sjávarútvegi sé áhættusamur og góð ávöxtun undanfarinna ára sé ekki ávísun á gott gengi í framtíðinni.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir var ráðin framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, á dögunum. Heiðrún á rætur sínar að rekja til Akraness og hefur sterka tengingu við sjávarútveginn, en faðir hennar var skipstjóri á Höfrungi, Ingunni og síðan Engey.

Mikilvægt að geta haldið sjó

„Rekstur hefur gengið vel á undanförnum árum í sjávarútvegi en það er ekki fasti að reksturinn gangi vel og það eru stórir áhættuþættir í sjávarútvegi sem annar atvinnurekstur býr almennt ekki við. Öll gjöld sem á að leggja á greinina þarf að skoða sérstaklega í því samhengi,“ segir Heiðrún aðspurð um afstöðu sína varðandi veiðigjöldin. „Góðu árin eru nýtt til að fjárfesta, kaupa betri skip og tæknivæddari tæki. Fyrirtækin eru því betur í stakk búin til að halda sjó þegar harðnar á dalnum.“

Heiðrún tekur fram að þótt stærri aðilar í sjávarútvegi geti hugsanlega hagrætt í rekstri þannig að þeir geti staðið undir nokkurri gjaldtöku þá bitnar sá veruleiki verr á smærri aðilum í greininni. „Verði aukið á þau gjöld sem sjávarútvegur greiðir til ríkisins munu þessir aðilar án vafa eiga erfiðara með að fóta sig, þar sem minna svigrúm kann að vera til hagræðingar en hjá þeim stærri og tæknivæddari. Hafi fyrirtæki ekki svigrúm til hagræðingar, þá er fyrirsjáanlegt að þau muni reyna að komast út úr greininni og selja reksturinn. Kaupendur yrðu þá að líkindum stærri útgerðir, þannig að afleiðingin yrði fækkun fyrirtækja og aukin samþjöppun á markaðnum.“

Fiskveiðistjórnunarkerfið virkar

Að hennar sögn þarf að hafa hugfast að íslenskur sjávarútvegur er í alþjóðlegri samkeppni. Gjaldtaka sem er verulega umfram það sem erlendir keppinautar þurfa að greiða til þess ríkis sem þeir hafa heimilisfesti í er því ekki skynsamleg. „Íslenskur sjávarútvegur er að greiða meira til samfélagsins en fyrirtæki í samanburðarlöndum. Við verðum því að spyrja okkur þeirrar spurningar hvort við séum í raun farin að taka þess háttar fjármuni út úr greininni að það sé farið að bitna á samkeppnishæfni íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja í alþjóðlegu samhengi?“

Heiðrún telur Íslendinga hafa náð góðum árangri í stjórnun fiskveiða.
Heiðrún telur Íslendinga hafa náð góðum árangri í stjórnun fiskveiða. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Nokkuð hefur borið á þeirri umræðu að mögulega væri rétt að taka Færeyinga okkur til fyrirmyndar og bjóða upp veiðiheimildir hér á landi. Heiðrún er efins um slíkar hugmyndir: „Það er rétt og gagnlegt fyrir okkur að fylgjast með þessari tilraun Færeyinga og hverju hún í raun komi til með að skila. Ég hef hins vegar miklar efasemdir um að uppboðsleið eða fyrningaleið sé sú rétta fyrir okkur Íslendinga.“

Áhættusöm tilraunastarfsemi varhugaverð

„Í fyrsta lagi erum við með fiskveiðistjórnunarkerfi sem hefur, ólíkt kerfi Færeyinga, skilað þeim markmiðum sem að var stefnt,“ segir Heiðrún. „Í öðru lagi er það sýnd veiði en ekki gefin að uppboð muni skila auknum fjármunum til ríkisins. Færeyingar gerðu sér vonir um að fá meiri fjármuni út úr þeim 36.000 tonnum sem boðin voru upp en þeir að endingu fengu.“

Heiðrún segir að í þriðja lagi skili uppboð ekki nýliðun, líkt og væntingar Færeyinga stóðu til. „Í heildina voru fimm hæstbjóðendur á uppboðunum og enginn þeirra er nýr. Stærstu kaupendur heimildanna voru raunar stærri aðilar í greininni. Þetta er atriði sem við eigum að gæta sérstaklega að, enda er mikill fjöldi smærri útgerða hér á  landi sem eru hryggjarstykkið í atvinnu einstakra svæða á landsbyggðinni. Verði þessir aðilar undir í útboðum getur það haft afdrifaríkar afleiðingar í för með sér fyrir hlutaðeigandi byggðakjarna og fólkið sem þar býr.

Í fjórða lagi,“ bætir Heiðrún við, „auka uppboð á óvissu í rekstri. Reynsla annarra ríkja sýnir að samdráttur verður í fjárfestingum og atvinnuöryggi bæði sjómanna og fólks í vinnslu er stefnt í hættu. Þegar við lítum til þess árangurs sem Íslendingar hafa náð við stjórnun fiskveiða, þá er áhættusöm tilraunastarfsemi með breytingar á kerfinu varhugaverð.“

Hún bendir á að skiptar skoðanir séu um það hversu vel hafi til tekist í Færeyjum en tíminn eigi betur eftir að leiða í ljós hvort uppboðin skili tilætluðum árangri þar í landi.

Fiskveiðiráðgjöf forsenda sjálfbærni í veiðum

Heiðrún segir einnig lítið hafa farið fyrir því í umræðunni hvaða fiskistofna Færeyingar ákváðu að bjóða út í þessari atrennu. „Um var að ræða heimildir til að veiða úr sameiginlegum fiskistofnum, en ekki stofnum á heimamiðum. Þrátt fyrir að samningar hafi ekki tekist um veiðar úr þessum sameiginlegu stofnum þá hafa Íslendingar veitt í samræmi við fiskveiðiráðgjöf. Ráðgjöfin er enda grundvöllur þess að stofnum verði við haldið. Það hafa Færeyingar ekki gert og þeir hafa einhliða tekið sér til muna stærri hlutdeild meðal annars í síld og kolmunna. Útboðin tengjast þessum veiðum, en við Íslendingar höfum lagt mikinn þunga á sjálfbærni í sjávarútvegi og að veitt sé í samræmi við ráðgjöf sérfræðinga. Það er auðvitað grundvöllur þess árangurs sem við höfum náð. Þessar aðgerðir Færeyinga eru því ekki til eftirbreytni og síst til þess að stuðla að viðhaldi þessara fiskistofna.“

Viðskiptasambönd ekki byggð á einum degi

Þá bendir Heiðrún einnig á að sala fiskafurða erlendis byggi á áralangri vinnu við markaðssetningu og traustu viðskiptasambandi við kaupendur. „Með útboðum kann tvennt að gerast; annars vegar getur þessi fjárfesting tapast hjá þeim sem í hana hafa lagt ef þeir verða ekki hæstbjóðendur í uppboðum og hins vegar gætu nýrri aðilar sem fengju veiðiheimildir á uppboði átt erfitt með að koma afurðinni á markað. Hér á landi hefur okkur tekist að tvinna vel saman veiðar, vinnslu og markaðssetningu. Þetta hefur skilað sér í hágæða vöru sem kaupendur greiða hátt verð fyrir. Í því felst samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs og við viljum ekki draga úr henni með vanhugsuðum tilraunum á kerfinu.“

Góðar framtíðarhorfur

Aðspurð um framtíðarhorfur í sjávarútvegi segir Heiðrún að þær séu almennt góðar og spennandi sé að fylgjast með þeirri miklu framþróun sem er að eiga sér stað. „Sjávarútvegur í dag snýst um svo miklu meira en veiðar og vinnslu. Þó verulegar umbreytingar hafi orðið í þeim þáttum á umliðnum árum, meðal annars með tólf nýjum skipum og aukinni tæknivæðingu í vinnslu, þá eru sífellt að verða til störf sem tengjast sjávarútvegi með beinum hætti.“

Nýsköpun er mikil í greininni, að hennar sögn. „Afurðir eru nú nýttar enn betur og vörur sem þróaðar hafa verið skipta tugum, jafnvel hundruðum. Íslenskar sjávarafurðir eru nýttar í snyrtivörur, fæðubótarefni, fatnað og lækningar, svo fátt eitt sé nefnt, og meira að segja er komin á markað afurð sem á að draga úr offitu gæludýra. Þegar maður heyrir af svona fjölbreyttu hugviti, þá veit maður að íslenskum sjávarútvegi eru allir vegir færir. Ég er í það minnsta stolt af því að fá að starfa með fólkinu sem tilheyrir honum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 17.1.25 593,63 kr/kg
Þorskur, slægður 17.1.25 609,46 kr/kg
Ýsa, óslægð 17.1.25 381,27 kr/kg
Ýsa, slægð 17.1.25 302,45 kr/kg
Ufsi, óslægður 17.1.25 193,66 kr/kg
Ufsi, slægður 17.1.25 253,81 kr/kg
Undirmálsufsi, óslægður 26.7.23 10,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 14.1.25 21,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 17.1.25 184,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

17.1.25 Litlanes ÞH 3 Línutrekt
Ýsa 1.064 kg
Þorskur 298 kg
Steinbítur 47 kg
Keila 17 kg
Hlýri 15 kg
Samtals 1.441 kg
17.1.25 Einar Guðnason ÍS 303 Lína
Þorskur 8.767 kg
Ýsa 5.091 kg
Steinbítur 294 kg
Langa 219 kg
Keila 78 kg
Karfi 20 kg
Samtals 14.469 kg
17.1.25 Eskey ÓF 80 Línutrekt
Þorskur 10.232 kg
Ýsa 1.981 kg
Langa 354 kg
Karfi 37 kg
Steinbítur 26 kg
Samtals 12.630 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 17.1.25 593,63 kr/kg
Þorskur, slægður 17.1.25 609,46 kr/kg
Ýsa, óslægð 17.1.25 381,27 kr/kg
Ýsa, slægð 17.1.25 302,45 kr/kg
Ufsi, óslægður 17.1.25 193,66 kr/kg
Ufsi, slægður 17.1.25 253,81 kr/kg
Undirmálsufsi, óslægður 26.7.23 10,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 14.1.25 21,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 17.1.25 184,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

17.1.25 Litlanes ÞH 3 Línutrekt
Ýsa 1.064 kg
Þorskur 298 kg
Steinbítur 47 kg
Keila 17 kg
Hlýri 15 kg
Samtals 1.441 kg
17.1.25 Einar Guðnason ÍS 303 Lína
Þorskur 8.767 kg
Ýsa 5.091 kg
Steinbítur 294 kg
Langa 219 kg
Keila 78 kg
Karfi 20 kg
Samtals 14.469 kg
17.1.25 Eskey ÓF 80 Línutrekt
Þorskur 10.232 kg
Ýsa 1.981 kg
Langa 354 kg
Karfi 37 kg
Steinbítur 26 kg
Samtals 12.630 kg

Skoða allar landanir »