„Maður þorir ekki að segja það, eiginlega. Fólk myndi bara ekki trúa því,“ segir skipstjórinn Trausti Egilsson aðspurður að því hvenær hann hafi byrjað til sjós. „Í fyrsta sinn sem sem ég réði mig hjá annarri útgerð en hjá pabba var árið sem ég varð 12 ára. Þá réði ég mig upp á hálfan hlut á móti öðrum og við skiptum með okkur 36 lóðum, svo hvor okkar beitti helminginn af því.“
Fyrstu vertíðina hóf Trausti á Núpi í september 1966. „Þetta er því orðin smá viðvera,“ segir Trausti og hlær við. Frá þeim tíma var hann á vertíðum fyrir vestan allt þar til hann fór í Stýrimannaskólann árið 1969 og útskrifaðist úr Farmannadeildinni 1972.
„Í þá daga þurfti maður að skila tveimur árum á sjó í siglingatíma áður en maður hóf námið. Vegna þess að ég fór í farmanninn varð ég meira að segja svo frægur að fara á Gullfoss í tæpa þrjá mánuði. Það vantaði bara einn dag upp á að ég kláraði þessa þrjá mánuði,“ segir Trausti.
Hann réri frá Súgandafirði á línubátum og vann í því sem til féll.
„Svo bauðst mér bátur á Þingeyri þegar ég var 23ja ára. Þá byrjaði ég með Fjölni, bát sem var smíðaður á Akureyri, 1977 að mig minnir. Sá bátur var merkilegur að því leytinu til að hann var með gaflrassgat,“ bætir hann við.
Þegar blaðamaður spyr Trausta hvort gaflrassgat sé samnefni yfir drottningarrassgat, sem útlistað var fyrir honum fjálglega á fundi fyrrum síðutogarasjómanna, segir hann ekki svo vera: „Neinei, drottningarrassgat var öðruvísi. Það var kúpt að aftan en gaflrassgat er þvert,“ útskýrir Trausti föðurlega. Þá er það komið á hreint.
Fjölnir var einnig merkilegur fyrir þær sakir að í honum var beitningarvél, fyrstum báta. Trausti segist strax hafa séð mikla möguleika í tækninni en vélin sem slík hafi ekki virkað sem skyldi. „Hún beitti ekki nema svona 20-25%. En svo komu þeir með miklu betri vélar í kjölfarið og þá auðvitað var það skref til batnaðar.“
Trausti fór til HB Granda árið 1987, þegar hann tók við stýrimannsstöðu á togaranum Ásgeiri. Tveimur árum síðar var hann ráðinn skipstjóri á Ásbjörninn og stýrði honum allt þar til Örfirisey kom til landsins árið 1992. Þar var hann skipstjóri fram á haustið 2016.
„Það hefur ekki verið slæmt að starfa þar, get ég sagt þér. Örfirisey er gott skip og útgerðin góð,“ segir Trausti. Hann segir útgerðir hafa gengið illa hér á árum áður þegar Landssambandsverðið var við lýði og menn hafi þurft að berjast fyrir því að fá laun sín greidd.
Eftir síldarhrunið fór Trausti á grálúðuveiðar: „Það var nú ansi gott og geysilega mikil grálúðuveiði þegar menn fundu miðin á Hrauninu við Kolbeinseyna. Þá var svakalega mikil veiði.“
Um muninn á sjómannslífinu þá og nú segir Trausti að það hafi í grunninn ekki orðið mikil breyting á starfanum: „En auðvitað er aðstaðan og aðbúnaðurinn allt önnur fyrir mennina í því umhverfi sem nú er. Í þá daga fór varla nokkur maður í frí. Það var þá helst að maður færi í skiptivinnu og bara reddaði manni á sjóinn fyrir sig. Það kom nokkrum sinnum fyrir þegar ég var að byggja. Þá þurfti maður að vera í landi annað slagið. En það var nú svo sem ekki oft.“
Trausti segir að mesta breytingin sem hann sjái er sú staðreynd að núorðið ætli fólk sér almennt ekki að verða sjómenn. Menn séu yfirleitt að ráða sig á sjó tímabundið. „Þegar ég var að alast upp, þá var bara ekkert annað inni í myndinni en að verða sjómaður. Maður ætlaði sér að verða sjómaður allt sitt líf.“
Eitt nefnir hann þó sérstaklega: „Jú, það er nú ein helvítis vitleysan. Þegar ég fór í Stýrimannaskólann, þá þurfti maður að skila siglingatíma. Menn þurftu að vera búnir að vera skráðir á sjó í tvö ár til að komast inn í Stýrimannaskólann. Þá eru menn búnir að fá nasasjón af þessu starfi. Núna geta menn bara farið í skólann án þess að hafa nokkru sinni stigið fæti á skip. Menn hafa hringt í mig til að falast eftir plássi og sagt mér hróðugir frá því að þeir séu í Stýrimannaskólanum. Þegar ég svo spyr þá hvar þeir hafi verið á sjó, þá kemur á daginn að þeir hafa bara aldrei verið á sjó! Maður skyldi ætla að menn prófuðu þetta áður en þeir fara að fjárfesta í námi eins og Stýrimannaskólanum. Því sjómennskan er ekki fyrir alla og staðreyndin er bara sú að annað hvort ertu sjómaður eða ekki,“ segir hann.
Hann segir sjómennskuna frábrugðna öðrum störfum að mörgu leytinu til. Það sé ekki sambærilegt að vera í landvinnu eða úti á sjó stóran part ársins og þar með leggja allar daglegar skyldur og ábyrgðir á maka sinn, jafnvel þótt nú sé öldin sú að menn geti átt samtal við sína nánustu milli vakta á Skype. „Svo veikjast börn og þú ert aldrei á staðnum. Fyrir utan allar gleðistundirnar sem maður missir af. Það fylgir sjómennskunni að maður missir af mörgum mikilvægum stundum í lífi fjölskyldunnar. Það hefur kannski aðeins lagast síðan menn fóru að róa einn og einn, miðað við það hvernig maður reri hérna í den tid. Maður var alltaf á sjó - bara alltaf. Það var nú ekki einu sinni til siðs í þá daga að vera viðstaddur fæðingu barnanna sinna og hvað þá meira. Maður fékk bara skeyti.“
Um þá stöðu sem uppi er í kjaradeilu sjómanna og SFS segir Trausti: „Þetta hlýtur að vera eitthvað samskiptaleysi. Nú er þetta sameiginlegir hagsmunir sjómanna og útgerða svo það ætti að vera sameiginlegt áhugamál beggja að fá sem hæst verð. Ef við fáum hátt verð, þá er kaupið hærra og útgerðin hefur meira fyrir sig. En það er fáheyrt að menn séu búnir að vera með lausa kjarasamninga í að verða sex ár – og menn varla talast við. Það er bara virðingarleysi því það er alltaf hægt að semja. Alltaf,“ segir hann með áherslutón.
Hann segir marga sjá laun sjómanna í bjöguðu ljósi. Þótt menn séu margir hverjir að hafa milljón á mánuði fyrir þann túr sem þeir róa, þá séu þeir í landi mánuðinn eftir. Og þá launalausir. Þá verða launin úr túrnum að duga til framfærslu í tvo mánuði í stað eins. Miðað við þetta séu laun sjómanna síst of há, nema síður sé.
„Menn vinna úti á sjó hvern einasta dag. Hverja einustu vakt. Mennirnir byrja að vinna um leið og sleppt er og þeir hætta því þegar búið er að binda skipið við bryggu að lokinni veiðiferð. Þess á milli eru þeir bara að vinna. Ef það er lítið fiskerí er aflinn unninn í dýrari pakkningar og þess á milli er reynt að keyra þetta í gegn eins hratt og hægt er. Það er ekkert hægt að bera þetta saman við landvinnsluna. Svo þurfa menn að kaupa sinn nauðsynlega hlíðfarfatnað sjálfir og borga olíuna og fleira. Það er ekki eins og það hafi ekkert verið tekið af sjómönnum,“ segir Trausti.
Um nýsmíðaálagið segir Trausti að ef hægt er að fækka á skipunum með aukinni tækni hljóti það að vera til hins góða. Afköstin verði meiri og gæðin kannski líka. „En núna skilst mér að fækkunin sé orðin svo mikil á þessum skipum að það horfi til stórvandræða. Menn eru bara útkeyrðir. Það má orðið ekki draga nema í fjóra tíma og þá eru menn ræstir út og svo aftur eftir fjóra tíma og svona gengur það. Menn hljóta að þreytast af því að ná aldrei svefni nema í 2-3 tíma í senn.“
Hann tekur fram að verkefnastaðan hjá honum sé flennigóð þrátt fyrir að vera hættur til sjós. Þessa dagana er hann að hjálpa syni sínum að standsetja íbúð og svo keypti hann sér trillu. „Það er nú bara til að halda geðheilsunni – svona forvarnarverkefni. Það er einstaklega ánægjulegt að geta róið út og veitt nokkra þorska og étið þá. Svo er kannski mál til komið að maður sinni konunni sinni eitthvað. Hún hefur séð um allt á meðan ég hef verið á sjó. Ég held að ég sé allavega búinn að skila mínu á sjónum, svo nú verða aðrir að taka við þar,“ segir Trausti Egilsson að lokum.