„Augljós skerðing á réttindum sjómanna“

Jónas Þór Jónasson hrl. telur nýtt veikindalaunaákvæði ólögmætt og skerða …
Jónas Þór Jónasson hrl. telur nýtt veikindalaunaákvæði ólögmætt og skerða rétt sjómanna vegna óvinnufærni. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ákvæði um slysa- og veikindakaup í nýjum kjarasamningi sjómanna hefur vakið upp spurningar. Lögmenn Sjómannafélags Íslands segja það augljósa skerðingu á réttindum sjómanna og stangast á við lög.

Mikil umræða hefur skapast um það hvort slysa- og veikindaréttur sjómanna skerðist með nýjum kjarasamningi. Forsvarsmenn Sjómannafélags Íslands neituðu til að mynda að skrifa undir nýjan kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) vegna þess að þeir töldu veikindarétt sjómanna skertan með ákvæði nýja samningsins, og hið sama gerðu Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur (SVG).

Sjá frétt: „Við skrifum ekki undir þetta“

Varð niðurstaðan á endanum sú að Sjómannafélag Íslands og SVG skrifuðu undir nýjan samning við SFS þar sem nýja ákvæðið um veikindaréttinn var fellt út úr samningnum. Ákvæðið er hins vegar að finna í nýjum kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og VM - Félags vélstjóra og málmtæknimanna.

Umrætt kjarasamningsákvæði er svohljóðandi: „Varðandi skipverja sem eru í skiptimannakerfum skal miða við þá grunnreglu vinnuréttar að skipverji skuli ekki vera betur settur fjárhagslega vegna óvinnufærni en hann hefði annars verið óforfallaður. Af því leiðir að ekki eru greidd laun vegna óvinnufærni í fríi skipverja.“

Sjómannalögin gilda

Um réttindi sjómanna vegna slysa og veikinda gilda sjómannalögin. Sjómenn eru almennt vel tryggðir við störf sín, sem ætti ekki að koma á óvart með hliðsjón af þeim aðstæðum sem menn vinna við úti á rúmsjó, í öllum veðrum.

Í 36. gr. sjómannalaga segir: „Skipverji sem verður óvinnufær vegna slyss eða veikinda sem hann verður fyrir á ráðningartíma halda fullum og óskertum launum í allt að 2 mánuði, enda sé hann óvinnufær allan þennan tíma. Sé skipverji í launalausu fríi er hann veikist eða slasast tekur hann laun frá þeim tíma er hann skyldi hefja störf að nýju.“

Yfir helmingur sjómanna lent í vinnuslysi

Eins og sjá má í þessari frétt 200 mílna höfðu rúmlega helmingur þeirra sjómanna sem svaraði viðhorfskönnun Samgöngustofu um öryggismál sjómanna lent í vinnuslysi við störf sín. Mikilvægt hlýtur því að vera að veikinda- og slysaréttur sjómanna sé eins skýr og mögulegt er, þar sem svo hátt hlutfall sjómanna hefur slasast við störf sín til sjós.

Formaður Sjómannasambands Íslands, sem undirritaði nýjan kjarasamning við SFS á sunudagskvöld með fyrrnefnda ákvæðinu inni í samningnum, hefur haldið því fram að um misskilning sé að ræða. Nýi samningurinn feli ekki í sér neins konar skerðingu á réttindum sjómanna sem verða óvinnufærir vegna slyss eða veikinda. Þvert á móti séu nýju samningarnir betri ef eitthvað er.

Valmundur Valmundsson segir ekki rétt að um skerðingu á veikindaréttinum …
Valmundur Valmundsson segir ekki rétt að um skerðingu á veikindaréttinum sé að ræða. Sjómenn séu betur settir ef eitthvað væri. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

 „Ef þú ert í skiptimannakerfi með jafnlaunakerfi, sem sagt alltaf á hálfum hlut ertu á hálfum hlut í veikindum. Núna færðu einungis hálfan hlut í tvo mánuði og tryggingu eftir það í hámark tvo mánuði. Með klausu í nýja samningnum er tryggt að menn haldi hálfum hlut í fjóra mánuði en ekki tvo. Og tveggja mánaða tryggingu eftir það. Þetta á ekki við þá sem eru ekki í jafnlauna- eða skiptimannakerfum. Þar gildir staðgengilskaup áfram,“ segir Valmundur Valmundsson.

Veikir eða slasaðir sjómenn eru ekki í fríi

Jónas Þór Jónasson, hæstaréttarlögmaður og lögmaður Sjómannafélags Íslands, er ekki á sama máli og segir ákvæðið skerða slysa- og veikindarétt sjómanna.

„Þetta er ekki rétt hjá Valmundi,“ segir hann. „Samkvæmt því ákvæði um veikinda- og slysalaun sem Sjómannasambandið og SFS hafa nú samið um, vegna sjómanna í skiptimannakerfum, greiðast engin laun ef viðkomandi sjómaður hefði átt að vera í frítúr. Þetta segir orðrétt í ákvæðinu“ segir Jónas.

„Sú er ekki raunin samkvæmt því kerfi sem hefur verið í gildi um langt árabil, þá ber að greiða laun fyrir frítúrinn og er hugsunin á bak við þá reglu sú að menn sem eru slasaðir eða veikir - þeir eru ekki í fríi. Má það því augljóst vera að sjómenn sem forfallast vegna veikinda eða slysa eru verr settir samkvæmt nýja kjarasamningsákvæðinu,“ bætir Jónas við.

Sjá frétt: Sjómenn eru naglar en menn verða að vera skynsamir.

Jónas Þór Jónasson er lögmaður Sjómannafélags Íslands.
Jónas Þór Jónasson er lögmaður Sjómannafélags Íslands. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

 „Sjómaður í skiptimannakerfinu einn túr á sjó og svo einn í landi sem slasast um borð í lok túrs og er óvinnufær í mánuð eftir að í land er komið fær samkvæmt kjarasamningsákvæðinu engin forfallalaun greidd í óvinnufærni sinni, en samkvæmt 36. gr. sjómannalaga og dómafordæmum Hæstaréttar þá á hann að fá túrinn greiddan,“ segir Jónas.

„Standi óvinnufærni í 2 mánuði fær sjómaðurinn næsta túr greiddan enda hefði hann átt að fara þann túr, en mögulega bara helming sé hann í greiðsludreifingarkerfi launa á móti öðrum skipverja í sömu stöðu. Standi óvinnufærnin í 3 mánuði fær sjómaðurinn enga greiðslu þriðja mánuðinn, enda alveg skýrt í þessu kjarasamningsákvæði að sjómanninum ber engin greiðsla fyrir þann tíma sem hann hefði átt að vera í frítúr, þótt hann sé sannarlega óvinnufær,“ heldur hann áfram.

„Kauptrygging greiðist hins vegar samkvæmt 36. gr. sjómannalaga þriðja mánuðinn í óvinnufærni sjómannsins.“

„Augljóslega skerðing á rétti sjómanna til slysalauna“

„Samantekið þá tryggir 36. gr. sjómannalaga sjómanninum í þessu dæmi, sem er óvinnufær í þrjá mánuði, full laun í tvo mánuði og svo kauptryggingu í einn mánuð. Samkvæmt hinu nýja kjarasamningsákvæði fengi sjómaðurinn hins vegar greidd laun í einn mánuð af þessum þremur sem hann er óvinnufær,“ segir Jónas Þór.

„Í þessu felst augljóslega skerðing á rétti sjómanna til slysa- og veikindalauna sem sjómönnum eru tryggð í sjómannalögum. Ákvæði kjarasamningsins víkur ekki til hliðar skýlausu ákvæði 36. gr. sjómannalaga. Þetta kjarasamningsákvæði er því ólögmætt og að engu hafandi,“ heldur hann áfram.

„Sé það hins vegar vilji samtaka sjómanna að skerða rétt sjómanna til slysa- og veikindalauna verður að koma til breyting á 36. gr. sjómannalaga. Þetta kjarasamningsákvæði, sem var tekið út úr þeim samningum sem Sjómannafélag Íslands og SVG skrifuðu undir, trompar eðlilega ekki ákvæði laga,“ segir Jónas Þór Jónasson.

Máli sínu til stuðnings bendir Jónas Þór á þennan dóm Hæstaréttar og þennan líka. Varð það niðurstaða Hæstaréttar að sjómaðunni sem verður óvinnufær ber að fá full laun greidd í óvinnufærni sinni þótt hann hefði átt að vera í launalausu fríi túrinn á eftir samkvæmt skiptimannakerfi.

Ekki má semja um lakari rétt en sjómannalög segja

Undir þetta tekur Jónas Haraldsson hæstaréttarlögmaður og lögmaður margra sjómannafélaga.

„Í fyrsta lagi er greinin ólögmæt því hún brýtur í bága við 4. grein sjómannalaga. Þar kemur fram að ekki sé hægt að semja um lakari rétt en lögin segja til um,“ bendir hann á.

Hann fullyrðir að áður en menn fallast á slíka breytingu á kjarasamningum verði menn að reikna út mörg dæmi til að sjá hvernig hún kæmi út í reynd.

„Menn verða að vita hvað þeir eru að fara út í með svona róttækri breytingu. Þetta er alltof þýðingarmikið mál og margbrotið til þess að hægt sé að gleypa þessa kjaraskerðingu svona hráa,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 23.1.25 594,52 kr/kg
Þorskur, slægður 23.1.25 721,50 kr/kg
Ýsa, óslægð 23.1.25 471,08 kr/kg
Ýsa, slægð 23.1.25 398,51 kr/kg
Ufsi, óslægður 23.1.25 195,61 kr/kg
Ufsi, slægður 23.1.25 276,83 kr/kg
Undirmálsufsi, óslægður 26.7.23 10,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 21.1.25 249,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 23.1.25 311,11 kr/kg

Fleiri tegundir »

23.1.25 Auður Vésteins SU 88 Lína
Þorskur 344 kg
Ýsa 48 kg
Steinbítur 25 kg
Langa 15 kg
Samtals 432 kg
23.1.25 Fanney EA 48 Línutrekt
Þorskur 3.941 kg
Ýsa 673 kg
Hlýri 295 kg
Karfi 97 kg
Steinbítur 15 kg
Samtals 5.021 kg
23.1.25 Ásdís ÍS 2 Dragnót
Skarkoli 846 kg
Þorskur 347 kg
Ýsa 243 kg
Steinbítur 125 kg
Sandkoli 29 kg
Þykkvalúra 3 kg
Samtals 1.593 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 23.1.25 594,52 kr/kg
Þorskur, slægður 23.1.25 721,50 kr/kg
Ýsa, óslægð 23.1.25 471,08 kr/kg
Ýsa, slægð 23.1.25 398,51 kr/kg
Ufsi, óslægður 23.1.25 195,61 kr/kg
Ufsi, slægður 23.1.25 276,83 kr/kg
Undirmálsufsi, óslægður 26.7.23 10,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 21.1.25 249,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 23.1.25 311,11 kr/kg

Fleiri tegundir »

23.1.25 Auður Vésteins SU 88 Lína
Þorskur 344 kg
Ýsa 48 kg
Steinbítur 25 kg
Langa 15 kg
Samtals 432 kg
23.1.25 Fanney EA 48 Línutrekt
Þorskur 3.941 kg
Ýsa 673 kg
Hlýri 295 kg
Karfi 97 kg
Steinbítur 15 kg
Samtals 5.021 kg
23.1.25 Ásdís ÍS 2 Dragnót
Skarkoli 846 kg
Þorskur 347 kg
Ýsa 243 kg
Steinbítur 125 kg
Sandkoli 29 kg
Þykkvalúra 3 kg
Samtals 1.593 kg

Skoða allar landanir »