Það er þungt hljóðið í vestfirskum sjómönnum eftir um það bil fjögurra daga langt verkfall á nýliðinni helgi. Sjómaður á Stefni segist enga hugmynd hafa um það af hverju skrifað hefði verið undir til að byrja með.
Sjá frétt á bb.is.
„Við höfum verið að fara yfir þennan samning sem skrifað var undir og nú er komið í ljós að trúnaðarmannaráð Verk-Vest eru strax búnir að hafna honum. Við höfum ekki hugmynd um af hverju var skrifað undir til að byrja með,“ segir Ari Auðunn Pétursson sjómaður á Stefni ÍS í samtali við bb.is.
Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfjarða, sagði að trúnaðarmannaráð félagsins hafi ekki séð annað í stöðunni en að hafna samningnum.
„Það var einfaldlega einróma niðurstaða fundarmanna að ekki væri hægt að samþykkja samninginn, og er það kauptryggingin sem situr helst í mönnum, en upphafshækkun er ekki sú sama í samningi okkar félagsmanna og í nýundirrituðum samningi Sjómannasambandsins. Sú hækkun sem Sjómannasambandið samdi um skilar sér því ekki til þeirra sjómanna sem eru okkar félagi.“
Stefnir ÍS og önnur vestfirsk skip héldu til veiða á þriðjudagskvöld eftir að verkfalli sjómanna var frestað. Ari Auðunn undrar sig á að ekki hafi verið kosið strax um samningana því þetta sé í raun ekki annað en frestun á verkfalli þar sem allir sjómenn hafi verið í landi þar til á þriðjudagskvöld.
„Við vorum búnir að búa okkur undir langt verkfall og harða baráttu, en náðum ekki einu sinni viku í verkfalli áður en það var búið að hripa niður einhvern tittlingaskít á blað sem er ekki virði pappírsins sem hann er skrifaður á. Allt bara til þess að koma flotanum aftur á miðin. Fresta verkfalli með því að fresta kosningu þrátt fyrir að allir sjómenn væru í landi. Það er einblínt á kjör og aðstæður hjá þeim sjómönnum sem hafa það langbest.“
Kosið verður um nýja kjarasamninga sjómanna fram til 14. desember og segir Ari Auðunn hljóðið í sjómönnum í kringum sig vera á þá leið að hann eigi ekki von á öðru en samningum verði hafnað.